Deila þessari síðu
Þegar búið að er gróðursetja vínvið í jörð á hann að geta lifað þar í minnst 50 til 60 ár ef allt gengur eðlilega – að því gefnu að ekkert komi fyrir. Ef eitthvað bregst þá er veiku plöntunni skipt út. Það er sem sagt ekki hægt að innleiða skiptiræktun á vínekrunum, sem er þó eitt af grunnatriðunum í sjálfbærni. Jarðvegurinn getur ekki gefið endalaust af sér því hann þarf næringu til að senda í lífæð plantnanna. Tilbúinn áburður ásamt eiturefnum (endurskírð varnarefni!) flokkast engan veginn undir aðferðir til sjálfbærni. Hvaða leiðir eru þá færar? „Sjálfbærni“ er töluvert misnotað hugtak.
Hvað er til dæmis á bak við ýmsar vottarnir fyrir vín sem hefur fjölgað verulega síðustu árin?
Allir vilja að sjálfsögðu flagga því hversu sjálfbærir þeir eru. En eru þeir það í raun og hvað felst í mismunandi skilgreiningum sem tengjast sjálfbærni?
Lífræn vottun
Tilgangur: Minnkar umhverfisáhrif ræktunar, verndar líffræðilegan fjölbreytileika og velferð dýra.
Ekki leyft: Kemísk varnarefni, graseyðir, skordýraeitur, tilbúinn áburður – í staðinn eru notuð náttúruleg og viðurkennd efni (t.d. náttúrulegur áburður). Engar erfðabreyttar plöntur eða ger, mun minna magn af brennisteinsefnum en í ólífrænum vínum. Lífræn vín í Bandaríkjunum mega ekki innihalda súlfíð.
Vínrækt og framleiðsla í kjallaranum eru vottuð saman, annars þarf að standa „unnið út lífrænum þrúgum“ og gildir það innan ESB og í flestum öðrum löndum.
Biodýnamísk (lífefld) vottun
Hér er meira um heimspekilega nálgun að ræða en einungis efnislega. Það var Rudolf Steiner sem þróaði heildræna sýn og smáskammtaaðferð í landbúnaðinum. Áherslan er lögð á heilbrigði jarðvegsins og að allt líf á jörðu tengist – þar af leiðandi er farið eftir sérstöku dagatali til að ná besta árangri hverju sinni eftir stöðu himintunglanna en einnig sólar og stjarna.
Vottun á vínum sem lúta lögmálum lífefldrar ræktunar gengur lengra en lífræn vottun. Náttúrulegt ger er eitt heimilað, engin súlfíð og smáskammtaaðferðir eru við hafðar á vínekrunni. Vottunin er aðallega í höndum samtaka biodýnamískra ræktenda, Demeter International.
Vottun um sjálfbærni
Í dag er engin sérstök opinber vottun sem tekur einungis til sjálfbærni í vínframleiðslu. Samtök framleiðenda hafa þó sett sjálfbærni í heildarframleiðslunni í öndvegi, á ekrunni jafnt sem í vínkjallaranum og öllum öðrum ferlum (flutningum, vatnsbúskap, orkunotkun o.s.frv.).
Minnkun sótspors er í flestöllum tilfellum aðal markmiðið. Hvert land fyrir sig hefur ákveðið reglur fyrir vottunina og opinber skrifstofa eða samtök framleiðenda halda utan um hana. Alþjóðlegu samtökin „International Wineries for Climate action“ eru ein þessara samtaka. Frakkland notar „Agriculture raisonnée“ stimpil, Terra Vitis og HVE vottun og eru þessar vottanir opinberar. Bretland, Ástralía, Nýja Sjálandi og Suður Afríka nota „Sustainable Winegrowing from…“ sem samtök framleiðenda hafa stofnað. Svipuð vottun finnst í Kaliforníu og Síle og er hún á vegum framleiðendasamtaka í þeim löndum.
Náttúruvín
Náttúruvín hafa verið mjög áberandi undanfarin 5-6 ár. Nokkrir aðilar flytja þau hingað til Íslands og sum þeirra eru orðin býsna vinsæl. Markmiðið í framleiðslunni er að láta vínið „gera sig sjálft“ og grípa sem minnst inn í ferlið með utanaðkomandi efnum eða áhrifum. Gallarnir sem voru áberandi fyrst, eins og oxídering, óstöðugleiki, lyktar- og bragðgallar, eru að hverfa. Ástæðan er sú að víngerðarmenn þekkja nú til dags mun betur aðlögunina sem þarf til að sleppa öllum aukefnum. Oft eru þetta minni framleiðendur sem hafa valið þessa leið í sinni framleiðslu. Þeir eru oft lífrænir eða bíódýnamískir en ekki alltaf vottaðir, mögulega vegna kostnaðar eða jafnvel vantrúar á vottanir.
Tilraunir til að fá opinbera skilgreiningu á „náttúruvínum“ eru dæmdar til að misheppnast. Framleiðsluferlin eru svo mörg og mismunandi rétt eins og hugmyndafræðin á bak við vínin. Þetta er nákvæmlega besta dæmið þar sem hugtakið „know your farmer“ – í þessu tilfelli vínbóndann, á vel við. Traust á innflytjandanum eða þeim sem selur vínin hefur líka sitt að segja.
Torres vínhúsið á Spáni er leiðandi í lausnum fyrir sjálfbærni í vínframleiðslunni og er stefnunni lýst hér.
Byggt að hluta á grein í tímaritinu Decanter.