Deila þessari síðu
Matvælaframleiðsla á Íslandi er stór hluti af hagkerfinu. Innan hennar eru greinar eins og landbúnaður, sjávarútvegur, matvælaiðnaður og hluti ferðaþjónustunnar. Um 25 þúsund manns starfa við matvælaframleiðslu eða þjónustu í þessum atvinnugreinum. Allt eru þetta greinar sem geta lagt mikið af mörkum til þess að bregðast við loftslagsvánni.
Fæðuframleiðsla fyrir sístækkandi samfélög um allan heim er áskorun sem allar þjóðir heims standa frammi fyrir. Vitneskja um áhrif matvælaframleiðslu á loftslag er vaxandi og aðgerðir til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda vegna fæðuframleiðslu eru sífellt meira í umræðunni. Mikil vitundarvakning er um sóun í matvælaframleiðslu og orkuskipti munu hafa víðtæk áhrif til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni.
Loftslagsbreytingar hafa vaxandi áhrif á matvælageirann
Matvælaframleiðsla, eins og landbúnaður og ýmis matvælaiðnaður, er stór uppspretta gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Jafnframt hafa loftslagsbreytingar mikil og vaxandi áhrif á þær atvinnugreinar sem tengjast matvælaframleiðslu. Matvælageirinn mun gegna mikilvægu hlutverki í fyrirsjáanlegri framtíð við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með breyttri orkunotkun og bættri nýtingu náttúruauðlinda og aðfanga. Þá hafa margir landeigendur mikla möguleika á að draga úr losun frá landi og auka bindingu með aðgerðum á sviði landnotkunar. Á komandi árum og áratugum blasa talsverðar áskoranir við matvælaframleiðslu í heiminum vegna loftslagsbreytinga. Á sama tíma þarf að standa undir matvælaframleiðslu fyrir hratt vaxandi mannfjölda á jörðinni.
Hvernig er hægt að bregðast við?
Til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum komu aðildarríki Parísarsamningsins sér saman um þrjú langtímamarkmið varðandi magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti:
- Að halda hnattrænni hlýnun vel innan við 2°C miðað við upphaf iðnbyltingar,
- en leitast á sama tíma við að halda hitastigsaukningunni innan við 1,5°C.
- Vinna að því að koma jafnvægi á alheimslosun og -bindingu eftir miðja 21. öldina.
Þjóðir heims sammæltust svo um að takmarka hlýnun við 1,5°C á aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í Glasgow í nóvember 2021.Til að mögulegt sé að uppfylla markmiðin er nauðsynlegt að koma jafnvægi á losun og bindingu (þ.e. að nettólosun verði engin) upp úr árinu 2050. Slíkt mun krefjast verulegs átaks þar sem núverandi binding dugir hvergi nærri til að vega á móti losun vegna brennslu jarðeldsneytis og breyttrar landnotkunar.
Eins og viðurkennt er í aðfararorðum Parísarsamningsins mun „sjálfbær lífstíll og sjálfbær framleiðsla og neysla“ gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr loftslagsbreytingum.
Þá er rétt að undirstrika að meginmarkmið Rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar er „að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran hátt.“
Af þessum ástæðum eru mótvægisaðgerðir í matvælaframleiðslunni afar mikilvægar á næstu árum og áratugum.
Matvælaframleiðslu fylgir töluverð losun gróðurhúsalofttegunda
Hérlendis er losun frá matvælaframleiðslu talsverð. Losun frá landbúnaði var rúmlega 13% af heildarlosun Íslands án landnotkunar árið 2019 og er þá losun vegna notkunar kælimiðla og brennslu eldsneytis í landbúnaði ekki meðtalin. Losun vegna fiskveiða var um 11% af heildarlosun árið 2019, einnig án losunar vegna notkunar kælimiðla.
Losun vegna matvælaframleiðslu er því mjög stór þáttur í heildarlosun Íslands.
Heimildir
Hagstofa Íslands. Upplýsingar um atvinnuvegi og talnaefni.
Umhverfisstofnun 2021. Losun Íslands.