Deila þessari síðu
Kaffi er hráefni sem er ræktað af 25 milljónum kaffibænda í um 80 löndum. Það er ræktað á svæði milli 25 breiddargráðu norður og 30 breiddargráðu suður.
Kaffibændur eru eins og aðrir bændur. Þeir þurfa að vera útsjónarsamir og hugsa fram í tímann.
Framleiðsluvaran er lífrænt hráefni sem þeir stefna á að seljist á sanngjarnasta verði og því er undirbúningsvinnan mjög mikilvæg.
Fjölskyldubúskapur sem krefst þekkingar og færni
Kaffibúgarðarnir eru oftast í höndum fjölskyldna og því mikil þekking á ræktun og vinnslu kaffis sem fer á milli ættliða. Kaffibændur skipta landinu upp í nokkur svæði og skrásetja upplýsingar um kaffitrén t.d. yrki, aldur, jarðveg, sólarljós, úrkomu o.s.frv. Þessar upplýsingar eru til staðar fyrir kaupandann á hrákaffinu til að veita rekjanleika hráefnisins.
Kaffibændur þurfa að taka margt með í reikninginn í sinni ræktun. Umhverfisáhrif eins og veðurfar og hitastig ráða miklu um uppskerna. Þá eru ýmsir sjúkdómar í plöntunum sem þarf að glíma við. Kaffibændur planta gjarnan kaffitrjánum inn á milli stærri trjáa til að nota skuggann. Sumir kaffibændur nota líka lífrænar varnir, s.s. blóm og jurtir sem skordýrafælur þar sem það er hægt.
Uppskera einu sinnu á ári
Kaffitré byrjar að bera ávöxt á þriðja til fimmta ári frá því að græðlingnum er plantað. Það tekur kaffiberið um níu mánuði að ná fullum þroska. Þar af leiðandi er uppskera einu sinni á ári í flestum kaffiræktunarlöndum. Á týnslutímabilinu leggst öll fjölskyldan á eitt að týna fullþroskuðu kaffiberin og það tímabil stendur yfir í 2-3 mánuði.
Kaffibóndinn og kaupmaðurinn þurfa að treysta hvor öðrum
Gæði og stöðugleiki í ræktun og vinnslu eykur líkurnar á tryggum samningi um langtimasölu á hrákaffinu. Þess vegna er mikilvægt að ná trausti á milli kaffibónda og hrábaunakaupmannsins. Keðjuverkunin stuðlar svo að stöðugu fjármagni og fjölskyldan þarf ekki að óttast tekjumissi. Fáir kaffibændur ná að lifa af kaffiræktun einni saman og eru því með hliðarbúgreinar, s.s. ávaxtaræktun.
Það eru örar tískusveiflur í því hvaða bragðprófíl hrábaunakaupmaðurinn er að leita að fyrir kaffiunnandann sem er heima hjá sér hinum megin á hnettinum að hella upp á kaffi.
Kaffibændurnir sjálfir hafa sjaldnast smakkað hráefnið sem þeir rækta og senda úr landi.
Í seinni tíð eru fleiri kaffibændur farnir að vinna með hrábaunakaupmönnunum í því að aðlagast tískusveiflum kaffiunnenda.