Deila þessari síðu
Hólmfríður Sveinsdóttir er nýr rektor Háskólans á Hólum. Hún er skipuð til næstu fimm ára og tekur við starfinu af Erlu Björk Örnólfsdóttur 1. júní næstkomandi. Erla Björk hefur sinnt rektorsembættinu síðustu tíu ár en sóttist ekki eftir endurráðningu.
Hólmfríður er með meistaragráðu í næringarfræði frá Justus Liebig háskólanum í Giessen í Þýskalandi og doktorsgráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands.
Hólmfríður leiddi rannsóknir og þróun hjá Fisk Seafood um árabil og stýrði uppbyggingu á Iceprotein og Protis sem var fyrsta íslenska fyrirtækið til að framleiða fiskprótín og kollagen og setja á markað sem fæðubótarefni. Hólmfríður hefur rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki sem heitir Mergur ráðgjöf og verið verkefnastjóri í fjölmörgum nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni.
Rektor Háskólans á Hólum er æðsti fulltrúi skólans gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan. Hann er skipaður til fimm ára í senn, er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana. Ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans er á höndum rektors.
Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tilkynnti skipun nýs rektors á starfsmannafundi Háskólans á Hólum í lok marsmánaðar og bauð Hólmfríði við það tilefni velkomna til starfa.