Deila þessari síðu
Verð til kúabænda fyrir mjólk í fyrsta flokki hækkaði um 6,6% um mánaðamótin mars/apríl samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar búvara. Eftir breytinguna fá bændur 111,89 krónur fyrir lítrann en fengu áður tæpar 105 krónur.
Við sama tilefni tilkynnti nefndin um 4,47% hækkun heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur og tekur gildi 4. apríl. Vörur sem um ræðir eru mjólk, nýmjólkurduft, rjómi, undanrenna, hreint skyr og 45% og 30% brauðostar.
Í rökstuðningi með verðbreytingunum segir að þær séu til komnar vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun 1. desember 2021.
Frá síðustu verðákvörðun til marsmánaðar 2022 hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 6,60%, að meðtalinni verðhækkun áburðar sem jafnan er reiknuð í júní.
„Á sama tímabili hefur vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 2,14% og er það grundvöllur hækkunar heildsöluverðs auk hækkunar á afurðaverði. Verðákvörðun verður tekin til endurskoðunar í maí þegar fyllri skoðun á vafaatriðum er tengjast sérstökum stuðningi sem greiddur var til móts við áburðarverðhækkanir liggur fyrir,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.
Ekki aprílgabb!
Verðlagsnefnd búvöra sendir venjulega fréttatilkynningar sínar eftir að hefðbundnum vinnudegi launafólks lýkur á föstudögum. Það brást ekki að þessu sinni en að auki bar daginn upp á 1. apríl. Það mun þó vera staðfest að ekki eru um aprílgabb að ræða enda bændur verðugir launa sinna.