Deila þessari síðu
Þau tímamót urðu á dögunum að hægt er að kaupa súrdeigsbrauð sem inniheldur að öllu leyti íslenskt korn. Það eru bræðurnir Sigfús og Guðmundur Guðfinnssynir í handverksbakaríinu Brauðhúsinu í Grímsbæ í Reykjavík sem eiga heiðurinn af brauðbakstrinum. Þeir hafa bakað lífræn súrdeigsbrauð frá árinu 1990 en hingað til notað erlent korn í baksturinn að mestu. Íslenska heilhveitið kemur frá bændunum í Vallanesi, þeim Eymundi Magnússyni og Eygló Björk Ólafsdóttur sem eiga vörumerkið Móðir jörð.
Einstakt sumar í fyrra gerði það að verkum að heilhveitið þroskaðist vel sem gerir það bökunarhæft.
Milt en afgerandi bragð
Heilhveitið sem notað er í brauðið er mjög bragðgott að sögn Eymundar bónda í Vallanesi. „Það er milt og afgerandi bragð af því og mér finnst það bragðmeira en innflutt fullþroskað korn. Kornið okkar náði einstökum þroska í fyrra enda sumarið með afbrigðum gott. Ræktunin snýst öll um að ná sem flestum sólarstundum svo þroskinn verði sem mestur. Við erum með finnska tegund af heilhveiti sem reynst hefur vel á norðlægum slóðum. Hjá okkur verður heilhveitið ekki alveg fullþroskað en það nær samt þeim eiginleikum að hægt er að baka úr því,“ segir Eymundur.
6 tonna uppskera í fyrra
Framleiðslan á heilhveitinu nam um 6 tonnum í fyrra þannig að magnið er ekki ýkja mikið. „Við höfum farið sparlega með það,“ segir Eymundur glettinn. Fleiri en bakararnir í Brauðhúsinu eru að nýta sér kornið í sína framleiðslu að hans sögn.
„Gústi og hans fólk í BakaBaka nota malað heilhveiti frá okkur sem hluta í sínar vörur en bræðurnir í Brauðhúsinu mala kornið sjálfir hjá sér.“
Heilhveiti Móður jarðar fæst í Brauðhúsinu í Grímsbæ, Fjarðarkaup, Frú Laugu, Hagkaup, Krónunni, Melabúðinni, helstu búðum Nettó, ME & MU, og í verslun bændanna í Vallanesi og á modirjord.is.