Deila þessari síðu
Bændasamtök Íslands flytja í skrifstofubyggingu í eigu FÍ-fasteignafélags við Borgartún 25 í lok sumars. Lýkur þá 60 ára veru þeirra í Bændahöllinni, Hótel Sögu, sem samtök bænda byggðu á sjötta og sjöunda áratugnum og tóku í notkun árið 1962. Byggingin í heild sinni var seld Háskóla Íslands í vetur í kjölfar gjaldþrots Hótel Sögu ehf. og mikilla fjárhagserfiðleika Bændahallarinnar ehf. sem er fasteignafélag í eigu Bændasamtakanna.
Þetta kemur fram í nýlegri fundargerð af stjórnarfundi BÍ þar sem fjallað var um nýjan húsaleigusamning samtakanna. Um er að ræða 308 fermetra húsnæði á 4. hæð í Borgartúni 25 sem er í póstnúmeri 105 í Reykjavík. Meðal nágranna BÍ á nýja staðnum er Microsoft á Íslandi, Almenni lífeyrissjóðurinn og Lögfræðistofa Reykjavíkur.
Fimm ára leigusamningur
Samningurinn er til 5 ára og gildir frá 1. maí í ár til 20. apríl 2027. Í fundargerð stjórnar BÍ segir að verið sé að hanna og skipuleggja innréttingarnar í nýja húsnæðinu, en gert sé ráð fyrir að flutningar verði strax að sumarleyfum loknum.
FÍ fasteignafélag, sem leigir Bændasamtökunum, er fasteignafélag að mestu í eigu lífeyrissjóða og í náinni samvinnu við Kviku banka. Félagið sérhæfir sig í rekstri fasteignafélaga á atvinnuhúsnæðismarkaðnum í samvinnu við fjárfesta.
Bændahöllin fær nýtt hlutverk
Bændahöllin, með sína tæplega 20 þúsund fermetra, var fyrir löngu orðin eitt helsta kennileiti veitinga- og hótelstarfsemi í Reykjavík. Hún var upphaflega reist af stórhuga bændum sem vildu tryggja sér góðan íverustað þegar þeir ráku erindi sín í höfuðborginni. En nú eru breyttir tímar og önnur starfsemi að færast í húsið.
Menntavísindasvið HÍ og Félagsstofnun stúdenta nýir húsbændur
Menntavísindasvið HÍ hefur helgað sér um 73 prósent húsnæðisins og Félagsstofnun stúdenta eignaðist afganginn, 4.-7. hæð í norðurálmu. Töluverðar framkvæmdir eru hafnar við endurgerð efstu hæða hússins. Þar verða innréttaðar 113 stúdíóíbúðir fyrir námsmenn.
Bændahöllin er sjö hæða bygging með 8. hæðina að hluta til viðbótar, þar sem veitingastaðurinn Grillið var um árabil. Gistiherbergi hótelsins voru 236 talsins en hótelið var á síðustu árum rekið undir merkjum Radisson Blu. Veitingastaðirnir Mímir og Grillið voru í húsinu fram undir heimsfaraldurinn.
Önnur Saga í Lækjargötu
Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort nöfn hússins, s.s. Bændahöllin, Saga, Súlnasalur, Grillið eða Mímir muni halda sér en óvissa er um það á þessu stigi samkvæmt heimildum Matlands. Athygli vakti fyrir nokkru þegar forsvarsmenn Íslandshótela kynntu nafnið á nýjasta hóteli sínu á gamla Íslandsbankareitnum við Lækjargötu. Það mun heita Hótel Reykjavík Saga og opnar í sumar.
Óvíst er hvort bændur muni flykkjast þangað þegar fram líða stundir en þar verða 130 herbergi af þrettán mismunandi gerðum.
Hvað mun kosta að breyta Bændahöllinni í háskólahúsnæði?
Í fréttum sem sagðar voru af kaupum HÍ á Bændahöllinni í vetur var talið að áætlaður heildarkostnaður við kaup og nauðsynlegt viðhald á húsnæðinu yrði um 6,5 milljarðar króna. Sú tala á mjög líklega eftir að reynast hærri þar sem kostnaðarsamar endurbætur eru fram undan við að breyta hótelinu í háskólahúsnæði og stúdentaíbúðir.
Haft var eftir Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra sameiginlegrar stjórnsýslu hjá HÍ, í Fréttablaðinu á dögunum að farið verði í útboð vegna framkvæmda á haustmánuðum. Kostnaðarramminn vegna HÍ sé þrír milljarðar króna og áætlað að skólinn geti tekið húsnæðið í notkun sumarið 2024.
Félagsstofnun stúdenta er byrjuð að framkvæma í sínum hluta Sögu og áætlað er að þær framkvæmdir kosti 850 milljónir króna og ljúki í febrúar á næsta ári.
Ekki eru öll kurl komin til grafar
Bændasamtökin hafa ekki gefið neitt uppi um söluhagnað eða tap af sölu Bændahallarinnar. Á fasteigninni hvíldi kvöð vegna svokallaðrar leiðréttingarskyldu á virðisaukaskatti að upphæð 566 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi frá 2020 sem aðgengilegur er á vef Skattsins. Ekki hafa verið gefnar upplýsingar um hvernig sú skuld verður meðhöndluð nú þegar forsendur félagsins hafa breyst og fasteignir þess ekki lengur nýttar til virðisaukaskattskyldrar starfsemi.
Þá hefur heldur ekki verið greint frá því opinberlega af nýjum eigendum hvað verður um aðra leigutaka í húsinu, s.s. Bókmenntafélagið, rafrænt útibú Arion-banka, Íslandspóst, rakara- og snyrtistofur í kjallara, Félag prófessora við ríkisháskóla, Félag háskólakennara og bókaútgáfuna Sögur ehf. á 2. hæð. Tíminn mun leiða það í ljós.