Deila þessari síðu
Ráðgjafarhópur sem matvælaráðherra skipaði á dögunum vegna alvarlegrar stöðu á matvælamarkaði leggur til að ríkið komi til móts við búvöruframleiðendur með 2.460 milljóna króna stuðningi á árinu 2022. Tillögurnar hafa nú þegar verið lagðar fyrir ríkisstjórn.
Steingrímur J. Sigfússon var formaður hópsins en þar sátu einnig þær Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Saga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Fordæmalausar verðhækkanir, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu, hafa gert það að verkum að hráefni eins og áburður, kjarnfóður, olía og rúlluplast hafa hækkað upp úr öllu valdi.
Ætla má að greinin sjálf, afurðafyrirtæki, verslunin og neytendur eigi eftir að takast á við kostnaðarauka af svipaðri stærðargráðu, að mati hópsins. Telur hópurinn að framboð á innlendri vöru geti dregist saman á næstunni með tilheyrandi áhrifum á fæðuöryggi og framleiðsluvilja bænda.
Tillögur í 6 liðum
Hópurinn, sem kallaður var „spretthópur“ sökum þröngra tímamarka, skilaði ráðherra tillögum til viðbragða í sex liðum. Í fjórum þeirra er lagt til að greitt verði álag á ákveðnar greiðslur samkvæmt gildandi búvörusamningum, samtals 2.460 milljónir króna.
Meðal annars er lagt til að greitt verði 65% álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur. Þá fái sauðfjárbændur 50% álag á gæðastýringargreiðslur en kostnaðurinn við þá greiðslu væri 950 milljónir króna. Nautabændur fái 164 milljónir króna sem 75% álag á nautakjötsframleiðslu. 12% álag verði lagt á gripagreiðslur fyrir mjólkurkýr sem þýðir 199 milljóna króna stuðning.
Hópurinn leggur til að garðyrkjubændur fái 135 milljónir króna í sinn hlut þar sem greitt verði álag á beingreiðslur og í jarðræktarstyrki vegna útiræktaðs grænmetis.
Um er að ræða greiðslur samkvæmt öllum búvörusamningunum fjórum auk þess sem 450 milljónir eru ætlaðar til stuðnings svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu þar sem ekki er um slíka samninga að ræða. Á grundvelli þeirra gagna og greininga sem hópurinn hafði við að styðjast er lagt til að potturinn skiptist þannig að 225 milljónir króna renni til svínaræktarinnar, 160 milljónir til alifuglaframleiðenda og 65 milljónir til eggjaframleiðenda.
Kostnaður við aðgerðirnar er áætlaður 0,07% af landsframleiðslu sem er viðbót við aðgerðir í upphafi árs sem námu 0,02%,“ segir í fréttatilkynningu.
Skýrslan fjallar um áhrif verðhækkana á ólíkar búgreinar, viðnámsþrótt þeirra, þróun á markaði það sem af er ári og líkleg áhrif þess ef stjórnvöld aðhafast ekkert. Miðað við þau gögn sem hópurinn hafði til að vinna úr bendir allt til þess að staða sauðfjárræktar og nautakjötsframleiðslu sé verst.
Áætla að rekstrarkostnaður bænda hafi hækkað um tæpa 9 milljarða á skömmum tíma
Vandinn er alþjóðlegur og ekki bundinn við Ísland. „Því hafa fleiri lönd stutt við matvælaframleiðslu, þ.m.t. flest þeirra landa sem við berum okkur saman við. Í vinnu spretthópsins var farið yfir viðbrögð annarra ríkja við þróuninni sem og aðgerðir stjórnvalda í upphafi árs og framtíðarhorfur greinarinnar hér á landi. Tillögur eru lagðar fram að aðgerðum til stuðnings bænda sem hafa orðið fyrir mestri kostnaðarhækkun að undanförnu. Þær eru í formi beinna styrkja og umbóta sem yrðu til þess fallnar að styðja við bændur tímabundið en jafnframt er horft til þess að auka viðnámsþrótt greinarinnar og tryggja eftir föngum fæðuöryggi þjóðarinnar,“ segir í skýrslu spretthópsins sem áætlar að rekstrarkostnaður landbúnaðar árið 2022 hafi hækkað um 8.900 milljónir vegna hækkana á áburði, kjarnfóðri, olíu og rúlluplasti. Þar af hækkar áburður um 3.000 milljónir, fóður um 4.500 milljónir og olía og plast um 1.400 milljónir.
„Nú þegar hefur verið komið til móts við hækkun á áburðarkostnaði sem nemur 650 milljónum. Áætlað er að hækkanir á afurðaverði, sem þegar eru komnar fram, muni skila um 3.600 milljónum í auknum tekjum á þessu ári. Eftir stendur kostnaðarauki upp á 4.650 milljónir en auk þessa hækka flestir aðrir kostnaðarliðir verulega milli ára. Þessar verðhækkanir hafa þegar veikt rekstrargrundvöll bænda mjög mikið og dregið úr framleiðsluvilja,“ segir í skýrslu hópsins.
Leggja til undanþágu frá samkeppnislögum
Í skýrslunni er lagt til að kjötafurðafyrirtækjum verði veitt tímabundin heimild til samstarfs með það að markmiði að hvetja til hagræðingar innan geirans. Heimildin yrði bundin ákveðnum skilyrðum sem lagt er til að verði unnin í samráði við Samkeppniseftirlitið.
Miðað við fyrri viðbrögð samkeppnisyfirvalda við hliðstæðum erindum um samvinnu á kjötmarkaði má ætla að undanþágur verði torsóttar.
Til viðbótar leggur hópurinn fram átta tillögur að aðgerðum sem miðast við lengra tímabil. Þær snerta m.a. neyðarbirgðahald, eflingu grænmetisframleiðslu, kornræktar, jarðræktarrannsókna, lífræna framleiðslu og aukið fæðuöryggi landsins.
Í niðurstöðum hópsins segir að ef ekkert yrði að gert myndi það þýða umtalsvert bakslag, neikvæða þróun í landbúnaði og skert fæðuöryggi þjóðarinnar.
Auk þess væri slík niðurstaða skilaboð í sjálfu sér sem hefðu niðurdrepandi áhrif á andrúmslofið og væru úr takti við viðbrögð helstu samanburðarþjóða.
Matvælaráðherra gerði tillögur hópsins að sínum og fékk samþykktar í ríkisstjórn
Á ríkisstjórnarfundi voru tillögur hópsins samþykktar og Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sagði við það tilefni í viðtali við Ríkisútvarpið: „Tillögurnar frá spretthópnum snúast um að ríkissjóður leggi til ákveðna fjárhæð í að koma til móts við stöðuna eins og hún er og að það verði gert hratt og vel. Ég gerði þær tillögur að mínum hér á ríkisstjórnarfundi og það var fallist á þær,“ sagði Svandís.
Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér á vef Matvælaráðuneytisins.