Deila þessari síðu
Undanfarin ár hefur orðið vitundarvakning um mörg mikilvæg mál, t.d. um gildi góðrar heilsu og umhverfismál. Með tilkomu samfélagsmiðlanna er auðveldara að miðla upplýsingum og vekja fólk til umhugsunar.
Hinn vestræni heimur einkennist af lífsgæðakapphlaupi og ríkri neyslumenningu. Fólk lifir til að vinna en gleymir oft að það ætti að vera að vinna til að lifa. Ekki síst við Íslendingar sem erum þekktir fyrir það að vinna mikla yfirvinnu og gefa okkur lítinn tíma til þess að leyfa okkur að njóta lífsins.
Fólk gefur sér oft ekki tíma til þess að finna nauðsynlega hugarró sem eykur lífsgleðina, styrkir andlegu heilsuna og ekki síst þá líkamlegu. Kulnun er algeng og mikið rædd þessi dægrin. Það er staðreynd að fólk gleymir sér í daglega amstrinu og rútínunni sem inniheldur ekki nógu mikla ró, næði og nautn.
Umhverfismál eru sérstaklega heitt málefni þar sem flest eru í meira mæli byrjuð að huga betur að því sem þau geta gert fyrir umhverfið. Þar má nefna aukna flokkun á sorpi, kaup á rafmagnsbílum, verslun í heimabyggð, breyttar ferðavenjur og margt fleira. Umhverfisvænni neysluhættir hafa vafist inn í heim matreiðslunnar líkt og fleiri þátta hins daglega lífs. Samtökin Slow Food International standa einmitt fyrir breytingum til þess betra þegar kemur að því að rífa sig upp úr stressandi rútínunni.
Grasrótarhreyfingin Slow Food
Slow Food eru alþjóðleg samtök áhugafólks um mat og umhverfisvernd sem stofnuð voru á Ítalíu árið 1986. Samtökin eru með það markmið að berjast á móti uppgangi skyndibitamenningarinnar og varðveita menningu samfélaga í heiminum. Samtökin eru í yfir 160 löndum í heiminum og þar á meðal á Íslandi. Slow Food snýst m.a. um það að nýta hráefnin vel og njóta þeirra án þess að flýta okkur. Samtökin eru með þessa umhverfisvænu stefnu sem felst í því að nýta það sem við eigum og borða eins mikið og við getum af hreinni fæðu án rotvarnarefna. Samtökin vilja sporna gegn því að menningin í hverju landi hverfi inn í alheimssamfélagið sem hefur myndast á síðustu áratugum. Þau vilja vekja athygli á ástandinu sem hrjáir býflugurnar, kóralrifin og meira að segja hversu ýmis búfjárrækt og fjöldaframleiðsla er gríðarlega óumhverfisvæn.
Slow Food snýst ekki einungis um umhverfismál heldur líka að auka andlega og líkamlega vellíðan fólks.
Skyndibitamenningin tekur yfir
Skyndibitamenningin er vissulega partur af stækkun alþjóðasamfélagsins. Það er ekki hægt að neita því að það getur verið þægilegt að stoppa á skyndibitastað til þess að spara sér tíma og vesen. En Slow Food samtökin standa fyrir því að við sem einstaklingar og samfélag eigum að njóta þessara stunda á milli stríða þegar við getum eytt tíma með ástvinum. Ekki með því að panta okkur ódýran og illa framleiddan, óumhverfisvænan mat. Heldur með því einu að gefa okkur auka hálftíma á hverjum degi til þess að matreiða hreina fæðu úr góðu hráefni. Það er einfaldlega betra bæði fyrir líkamann og sálina að láta ofan í sig hreina fæðu heldur en að fylla sig af rotvarnarefnum.
Ekki svo ólíkt jóga
Hugmyndafræði Slow Food samtakanna er einstaklega falleg. Þegar við stöldrum við og gefum okkur smá auka tíma til þess að njóta góðs matar, til þess að virkilega huga að því hvaða efni það eru sem við erum að láta ofan í okkur, þá er það eiginlega eins og ákveðið jóga.
Með því einu að tileinka sér hreinni lífsstíl þegar kemur að mataræði þá hefur maður betri áhrif á umhverfið og sjálfan sig.
Það er ákveðin hugarró sem fylgir því að elda góðan mat þegar maður gefur sér réttan tíma í það.
Hvað getum við gert?
Hvað getum við gert til þess að tileinka okkur betri lifnaðarhætti? Við getum til dæmis byrjað á því að huga betur að því hvaðan fæðan okkar kemur. Við getum valið íslenskt frekar en að velja það sem er fljótlegast. Við getum valið það að verja nokkrum auka mínútum á hverjum degi í matreiðslu og fengið út úr því betri líkamlega og sálræna líðan ásamt fleiri góðum minningum með fjölskyldu og vinum. Við getum flokkað sorpið okkar á skilvirkari hátt til þess að varðveita umhverfið. Umhverfið er jú uppruninn af menningunni sem við lifum og hrærumst í.
Með því að fara betur með jörðina erum við líka að gæta hagsmuna komandi kynslóða og viðhalda menningunni.
Vekjum athygli á öllu því sem við getum gert betur. Tökum Slow Food til fyrirmyndar og verum betri við sjálf okkur og umhverfið.
Hægt er að kynna sér stefnu Slow Food betur á vefsíðu samtakanna: www.slowfood.com