Deila þessari síðu
Á bænum Tjörn á Mýrum í Hornafirði búa bræðurnir Halldór og Agnar Ólafssynir. Þeir eru ungir að árum en hafa tekið við búskap og rekstri á Tjörn. Matland selur úrvalskjöt frá þeim bræðrum.
Nautabúskapurinn á Tjörn er lítill í sniðum en alls eru á þriðja tug nauta í eldi á bænum. Auk þess eru þeir bræður með kindur. Báðir hafa þeir atvinnu utan búsins. Halldór starfar á býlinu Flatey sem er í hópi stærstu kúabúa landsins en Agnar er vélvirki og sinnir vélaviðgerðum fyrir sveitunga sína ásamt fjölbreyttri vélaverktöku. Agnar hefur um árabil getið sér gott orð fyrir þjálfun á fjárhundum og unnið til verðlauna í smalahundakeppnum.
Öll nautin fá nafn
Halldór ber ábyrgð á nautaeldinu á Tjörn en hann er mikill ræktunarmaður og hefur gríðarlegan áhuga á skepnum. Agnar fullyrðir að nautin á Tjörn séu elskuðustu naut landsins þegar hann lýsir búskaparháttum Halldórs bróður síns sem skírir öll nautin og þekkir ættir bæði feðra og mæðra út og inn. Það þykir sérstakt við nautin á Tjörn að þau eru mörg fallega hyrnd. Það er áhugamál Halldórs og velur hann nautkálfa meðal annars eftir því hvort foreldrarnir séu með horn.
Nautkálfana fá þeir bræður nokkurra vikna gamla frá búinu í Flatey og ala þá á Tjörn í sláturstærð í um tvö ár. Nautin á Tjörn eru eingöngu grasfóðruð en kálfarnir fá mjólk fyrstu vikurnar.
Matland býður upp á fjölbreytt úrval af nautakjöti frá Tjörn. Þú getur keypt þér steikur, hakk og gúllas og bita sem ekki fást alltaf í búðum. Sérlega meyrt og bragðgott kjöt.
Þriðjudaginn 28. febrúar mun Matland afhenda í fyrsta skipti ferskar steikur frá Tjörn. Skoðið úrvalið hér undir og gerið góð kaup.
-
Flögusalt frá Saltverki1.295 kr.