Deila þessari síðu
Kýrin Sóley á bænum Glitstöðum í Norðurárdal er kostagripur. Hún er fædd árið 2015 og bar sínum fimmta kálfi í ágúst síðastliðnum. Eitt af afkvæmum Sóleyjar er nautið Marmari sem hlotnaðist sá heiður í vikunni að verða valinn í hóp 22 efnilegustu nauta landsins.
![](https://i0.wp.com/matland.is/wp-content/uploads/2022/10/kyr_glitstadir.jpg?w=1300&ssl=1)
Að sögn Guðrúnar Sigurjónsdóttur, bónda á Glitstöðum, er tilefnið það að verið er að taka upp nýja aðferð við mat á úrvalsnautum til undaneldis með hjálp DNA-mælinga, svokallað erfðamengjaúrval. Guðrún segir að nýja tæknin marki merkileg þáttaskil í íslenskri nautgriparækt.
![](https://i0.wp.com/matland.is/wp-content/uploads/2022/10/gudrun_sigurjonsdottir.jpg?resize=1024%2C683&ssl=1)
„Erfðaframförum er flýtt á grundvelli DNA-mælinga þannig að nú er hægt að sjá strax og nautkálfur fæðist hvort hann verður góður kynbótagripur eða ekki. Hingað til hefur þurft að fá þá niðurstöðu á grundvelli afkvæmaprófana, þ.e. hvernig dætur viðkomandi nauts hafa staðið sig,“ segir Guðrún.
Hún segist stolt yfir því að eitt af nautunum frá Glitstöðum skuli vera í hópi þeirra sem teljast álitlegust á landinu.
„Við á Glitstöðum erum ánægð með að eiga eitt naut af þessum 22,“ segir Guðrún sem er líka heppin að eiga Sóleyju í sinni kúahjörð.
„Hún er núna að mjólka um 40 lítra á dag og er ein af drottningunum í fjósinu.“
Hægt er að kaupa kjöt frá Glitstöðum á Matlandi og fræðast meira um búið í meðfylgjandi myndbandi.
![Matland](https://i0.wp.com/matland.is/wp-content/uploads/2022/03/Matland_logo.png?resize=573%2C144&ssl=1)