Deila þessari síðu
Á Grímsstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði reka hjónin Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir og Hörður Guðmundsson sauðfjárbú og lítið sláturhús með kjötvinnslu og iðnaðareldhúsi. Vörurnar þeirra eru markaðssettar undir heitinu „Grímsstaðaket“. Þau hafa rekið búið á Grímsstöðum frá því árið 2017 þegar þau tóku við af foreldrum Jóhönnu.
Matland býður nú í fyrsta sinn til sölu kjöt frá þessu ágæta búi sem hefur stimplað sig rækilega inn hjá þeim sem kaupa beint frá býli.
„Við erum afar stolt af því að geta boðið upp á lambakjöt sem við ölum, slátrum, vinnum og afhendum þér sjálf eins og þú vilt hafa þitt lambakjöt hanterað,“ segja þau hjónin í kynningarefni um lambakjötið sitt.
Grímsstaðaket kjötvinnsla hóf rekstur árið 2020 og síðan þá hafa Jóhanna og Hörður byggt upp og bætt við á hverju ári. Í dag er starfrækt kjötvinnsla, sláturhús og eldhús á Grímsstöðum og uppbyggingu hvergi nærri lokið. Slátrunin fer fram eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir og dýralæknir er ávallt viðstaddur.
Jóhanna og Hörður leggja metnað í að fullvinna sem mest af sínum vörum heima. Þeirra fé þarf ekki að ferðast langar leiðir í sláturhús og allt er gert heima á bæ. Þau leggja áherslu á að skrokkar fái að hanga og meyrna áður en þeir fara í frekari vinnslu.
Allt kjöt frá Grímsstöðum er fullmeyrnað þegar það er fryst. Kaupendur þurfa því ekki að láta kjötið bíða í kæli eftir að það er uppþítt.
Kjötið sem verður í boði fyrst um sinn á Matlandi frá Grímsstöðum er ærgúllas, hryggvöðvar og framhryggjarbitar. Allt gæðakjöt sem er meyrt og bragðgott.