Íslandsstofa hefur um árabil unnið að samstarfsverkefnum við saltfiskkaupendur úti í heimi. Björgvin Þór Björgvinsson, starfsmaður Íslandsstofu, tók meðfylgjandi myndir í aprílbyrjun á kokkaskólakeppni í Róm þar sem 6 nemendur frá öllum landshlutum Ítalíu elduðu sínar uppskriftir úr íslenskum saltfiski.
„Sigurvegarinn kemur frá kokkaskólanum í Sorrento og eru verðlaunin m.a. ferð til Íslands. Þetta er þriðja keppnin á fimm mánuðum í þremur löndum en áður vorum við með keppnir í Porto í nóvember og Madrid í mars, “ segir Björgvin og bætir því við að þetta sé sterk leið við að kynna fiskinn okkar.
„Ég veit að þetta unga fólk mun hugsa með hlýju til þessa dags Róm og velja íslenskan saltfisk umfram annan fisk þegar sú stund kemur í þeirra lífi. Þetta er markaðsaðgerð í verkefninu Seafood from Iceland sem við hjá Íslandsstofu vinnum að með SFS og íslenskum framleiðendum og sölufyrirtækjum,“ segir Björgvin Þór.