Deila þessari síðu
Guðmundur Ragnarsson í Laugaási er á fullu þessa dagana að undirbúa veitingasölu á Landsmóti hestamanna á Hellu sem hefst sunnudaginn 3. júlí og lýkur með kvölddagskrá 9. júlí. Á landsmótssvæðinu á Gaddstaðaflötum verður boðið upp á fjölbreytt úrval af mat og drykk en Guðmundur og hans fólk, sem alls eru um 60 talsins í vinnu mótsdagana, verða með stórt matarsvæði í tjaldi sem er ofan við aðalhringvöllinn. Búist er við þúsundum gesta sem allir þurfa einhverja hressingu.
Matarlína og fullkomið bakarí
„Við verðum með glæsilega mathöll á svæðinu í einu stærsta matartjaldi sem sett hefur verið upp á Íslandi. Þarna verður boðið upp á fjölbreyttar veitingar og gestir geta snætt á staðnum eða tekið með sér í brekkuna. Við erum búin að setja upp heilt bakarí, matarlínu og bari. Allt mjög fullkomið og eins og best verður á kosið, s.s. tölvustýrðir ofnar og heimsklassa græjur. Það verður opið lengi og fólk getur gripið með sér mat frá morgni til kvölds,“ segir Guðmundur.
Það verður nóg að bíta og brenna fyrir gesti Landsmóts og hráefnið kemur víða að.
„Við hjá Laugaási höfum lagt mikið í verkefnið. Það hafa farið 12 flutningabílar austur með tæki og tól og hráefni. Ég held að ég megi fullyrða að það hafi engin útihátíð boðið upp á viðlíka veitingar á einum stað.“
„Það verða meðal annars á boðstólum lambakótelettur, lambagrillsneiðar, pítsur, hamborgarar, kjúklingur og fleira. Okkar aðalbirgjar eru SS og Holtakjúklingur.“
Meira en að mæta á staðinn með eitt grill
Guðmundur segir að starfsfólk veitingaþjónustu Laugaáss búi að því að hafa unnið í mörgum stórum verkefnum og sé tilbúið fyrir landsmótsvikuna.
„Þetta er aðeins meira en að mæta á staðinn með eitt grill! Það eru miklar kröfur um hreinlæti og þar er allt upp á tíu hjá okkur. Við hjá Laugaási höfum mikið unnið í tengslum við erlendar kvikmyndir og séð starfsfólki víða að úr heiminum fyrir mat. Þar eru kröfurnar mjög miklar og við höfum lært á því. Heilbrigðiseftirlitið tók okkur út og allt stóðst eins og stafur á bók. Þarna erum við með græjur upp á 150 milljónir króna og 60 manns í vinnu þegar allt er talið. Það er meðal annars fólk sem er að elda og afgreiða. Vaktaplanið er klárt og allir í gistingu í nágrenni mótsstaðarins. Við gengum frá því fyrir mörgum mánuðum,“ segir Guðmundur.
Vilja gefa tóninn fyrir aðrar útihátíðir
Það eru margir sem koma að framkvæmdinni að setja upp veitingaaðstöðu fyrir fleiri þúsund manns. Guðmundur segir að samstarfið við sýningarhaldara og alla sem koma að undirbúningi hafi gengið eins og í sögu.
„Það er frábært að segja frá því hvað allir eru einhuga að vinna þetta með okkur. Vonandi getum við gefið tóninn fyrir aðrar útihátíðir hvað gæði varðar. Það er löngu tímabært að menn geri þetta almennilega. Við erum með stórgott samstarf við heilbrigðiseftirlit og Sýslumann. Allir að vilja gerðir þegar menn sjá að við erum með allan útbúnað. Þetta er eins og maður segir; rétt gert!“
Gæðin eru aðalmálið
Guðmundur segir erfitt að spá nákvæmlega um fjölda munna sem þarf að metta.
„Við reynum að gera þetta eins vel og hægt er. Það koma mörg þúsund manns og eins og veðurkortin líta út í dag þá er ástæða til að vera bjartsýnn. Ég vona að þetta verði langstærsta útihátíð landsins þetta árið. Það sem skiptir mestu máli fyrir okkur er að geta boðið upp á sem allra bestu og hröðustu þjónustu fyrir okkar gesti. Við leggjum mikið meiri áherslu á að gera hlutina vel og vera stolt af því sem við erum að gera frekar en að einblína á einhvern fjölda. Þeir sem koma munu njóta! Þetta er fjölskylduhátíð og flottustu hross landsins á sama stað. Það gerist ekki betra!“ segir Guðmundur Ragnarsson í Laugaási.