Deila þessari síðu
Breska ríkið hefur ákveðið að veita umtalsverðum fjármunum til bænda til þess að breyta landi sem hefur verið brotið til beitar og ræktunar aftur í villt svæði. Ástæðan er endurheimt votlendis og að tryggja afkomu ýmissa dýrategunda sem eru á válista.
Mikil uppstokkun á landbúnaðarstyrkjum í kjölfar Brexit
Styrkirnir eru hluti af margskyns uppstokkun og endurdreifingu fjármagns í kjölfar Brexit. Einkum er átt við svæði sem áður voru votlendi og mýrar en hafa verið ræst fram til landbúnaðar. Ám og lækjum yrði snúið aftur til fyrra horfs og þar með náttúrulegu umhverfi ýmissa sjaldgæfra tegunda vaðfugla, nagdýra og froskdýra.
George Eustice, umhverfis- og matvælamálaráðherra, segir að um sé að ræða tilraun til þess að samhæfa náttúru- og dýravernd við landbúnað og matvælaframleiðslu.
,,Okkur langar til að sjá fyrirtæki í landbúnaði ná árangri í viðskiptum með framleiðslu á hollum mat og styrkja þar með efnahagslíf á dreifbýlissvæðum. Um leið tryggjum við aðgengi að villtri náttúru. Með þessum aðgerðum er hugmyndin að vinna með bændum og landeigendum gegn fækkun tegunda, minnka kolefnisspor, auka skóglendi, bæta gæði vatns og lofts og gefa náttúrunni meira rými.”
George Eustice
Samstarf við bændur lykill að framtíð villtra svæða
Um er að ræða að endurheimta annars vegar upprunalegt landslag og hins vegar bæði gróður og dýralíf. Einnig geta bændur sótt um styrki til að vernda ræktarland og sinna almennri náttúruvernd.
Reiknað er með að til þessara verkefni fari um 800 milljón pund (sem eru 137 milljarðar íslenskra króna) af þeim tæplega tveimur og hálfum milljarði punda sem hefur verið ráðstafað til landbúnaðarins í kjölfar Brexit.
Grundvallarhugmyndin er að bændur fái sjálfir greitt fyrir hvert og eitt verkefni í umhverfis- og náttúruvernd burtséð frá stærð ræktar- og beitilands hvers býlis.
Víða í Evrópu hafa stjórnvöld lagt æ ríkari áherslu á verndun votlendis og endurheimt upprunalegs landslags. Á Íslandi hefur Votlendissjóður sinnt svipuðum verkefnum í samstarfi við Landgræðsluna, landeigendur og fleiri aðila.