Deila þessari síðu
Norrænu Emblu-verðlaunin verða veitt í dag í Osló og hefst athöfn kl. 17.45 sem streymt verður á Facebook. Markmiðið með Embluverðlaununum er að gera norrænum mat- og matarmenningu hátt undir höfði og vekja athygli á því sem vel er gert í matvælageiranum.
Embluverðlaunin eru haldin í þriðja sinn en þau voru fyrst veitt í Danmörku árið 2017. Árið 2019 voru verðlaunin veitt á Íslandi en vegna heimsfaraldursins varð að fresta þeim 2021. Það eru norrænu bændasamtökin sem eiga og reka Embluverðlaunin en þau njóta ríkulegs stuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni. Grænland tekur í fyrsta sinn þátt í ár en keppt er í sjö flokkum.
Þeir sem eru tilnefndir fyrir hönd Íslands eru eftirtaldir:
Matvælaiðnaðarmaður Norðurlanda
Bændurnir Jóhannes H. Ríkharðsson og Stefanía Hjördís Leifsdóttir á Brúnastöðum í Fljótum framleiða m.a. osta úr geitamjólk og fleiri vörur.
Hráefnisframleiðandi Norðurlanda
Nordic Wasabi er tilnefnt í þessum flokki fyrir framleiðslu á fersku wasabi á Héraði.
Embluverðlaun fyrir mat fyrir marga
Dominique Plédel Jónsson er tilnefnd sem áhrifavaldur en hún hefur um árabil talað fyrir gildi góðrar fæðu á líf fólks. Dominique hefur verið formaður Slow Food á Íslandi frá árinu 2008 og á Norðurlöndunum síðan 2019.
Miðlun um mat / Matarblaðamaður Norðurlanda
Gunnar Karl Gíslason, eigandi veitingastaðarins Dill.
Mataráfangastaður Norðurlanda
Vestmannaeyjar eru tilnefndar sem framlag Íslands til „Mataráfangastaðar Norðurlandanna“.
Matvælafrumkvöðull Norðurlanda
Pétur Pétursson mjólkurfræðingur er er tilnefndur fyrir rjómalíkjörinn Jöklu.
Embluverðlaun fyrir mat fyrir börn og ungmenni
Matartíminn er vörumerki í eigu Sölufélags garðyrkjumanna. Fyrirtækið hefur náð eftirtektarverðum árangri við að auka hlut íslenskra búvara í grunn- og leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Matartíminn var tilnefndur í sama flokki árið 2019.