Deila þessari síðu
Smátt og smátt bætast fleiri matvörur í Markaðinn hér á Matlandi. Nýjasta varan er ærskinka sem nú er fáanleg í fyrsta sinn á Íslandi, svo vitað sé. Heiðurinn af skinkunni á Sigurður Haraldsson sem var útnefndur Kjötmeistari Íslands 2022 í vetur. Sigurður gerði sér lítið fyrir og fékk gullverðlaun fyrir ærskinkuna í fagkeppni kjötiðnaðarmanna sem haldin var í lok mars á þessu ári.
Gæðakjöt frá bændunum í Bakkakoti
Ærskinkan er 98% kindakjöt af nýslátruðum gripum frá bænum Bakkakoti í Stafholtstungum í Borgarfirði. Þar búa bændurnir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson og Kristín Kristjánsdóttir. Sláturhús Vesturlands í Brákarey verkaði kjötið og úrbeinaði. Ærnar flokkuðust allar í FR3-flokkinn sem er mjög góður gæðaflokkur. Hæfilega feitt kjöt og ærnar í góðum holdum.
Í hverjum pakka eru 15-18 skinkusneiðar og heildarþyngd er 260 g. Skinkan er sem fyrr segir fáanleg í vefverslun Matlands og líka hjá Pylsumeistaranum á Hrísateig 47 í Reykjavík.