Deila þessari síðu
Fyrirtækið Aldingróður í Vestmannaeyjum er þriggja ára gamalt frumkvöðlafyrirtæki sem ræktar um 20 tegundir af sprettum. Fyrstu ræktuðu sprettubakkarnir sem fyrirtækið framleiddi voru afhentir veitingahúsinu Slippnum í Vestmannaeyjum sumarið 2019. Spretturnar frá Aldingróðri hafa nær eingöngu verið í boði fyrir veitingahús og mötuneyti hingað til og fást ekki í verslunum. Matland býður upp á sinnepssprettur í grænmetiskassa #13.
Einar starfaði á sínum tíma með Stefáni Karli Stefánssyni leikara sem hann kallar „föður spretturæktar á Íslandi“. Stefán heitinn setti á fót fyrirtækið Sprettu og segir Einar að Aldingróður hafi haft hans hugsjónir og drifkraft að leiðarljósi.
Sprettur eru í raun lítið grænmeti og litlar kryddplöntur sem eru ræktaðar þar til fyrstu kímblöð plöntunnar hafa komið fram. Spretturnar eru fljótar að vaxa en ræktunartími þeirra er nokkuð misjafn, frá 7-30 dagar.
Sinnepsspretturnar sem Matland býður upp á eru bragðmiklar með sætum undirtón sem minna á Dijon-sinnep. Þær eru upplagðar í sýrða rjómann, sem skraut eða í „boost“ og safa. Spretturnar eru mjög vítamínríkar. Innihalda m.a.: A, C, K, E, B6 vítamín, fólat, níasín, kopar, kalsíum, járn, mangan og sink. Enginn varnarefni eru notuð við ræktunina. Sannkölluð ofurfæða!
Ingunn og Einar segja að spretturnar þeirra séu 100% handgerðar þar sem engar vélar koma að ræktuninni.
„Mikil vinna liggur á bak við hverja ræktaða einingu og við trúum því að allan mat á að rækta á ábyrgan hátt, í nálægð við markaðinn og eigi að bragðast vel,“ segja þau.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði