Deila þessari síðu
Á Litla-Ármóti í Flóahreppi búa þau Hrafnhildur Baldursdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson ásamt þremur börnum sínum. Á bænum er nýlegt fjós þar sem er framleidd mjólk og kjöt. Mjólkurkýrnar eru ríflega 60 talsins en að auki hafa þau alið nautkálfa í sláturstærð í nokkur ár. Uxakjöt frá Litla-Ármóti er nú fáanlegt á Matlandi og verður fyrsta afhending fyrir páskana.
Bændurnir á Litla-Ármóti í Flóahreppi, þau Hrafnhildur Baldursdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson, með strákana sína tvo, þá Nikulás Tuma og Baldur Ragnar. Mynd / MHH
„Markmið okkar er að bæði skepnum og mönnum líði alltaf sem best á Litla-Ármóti,“ segja þau Hrafnhildur og Ragnar Finnur.
Hvernig eru uxar frábrugðnir nautum?
Uxar eru í raun nautkálfar sem eru geltir um 6 mánaða aldur. Það er sársaukalaus aðgerð sem dýralæknir framkvæmir og þeir eru fljótir að ná sér eftir inngripið. Uxarnir eru rólegri í umgengni en graðneyti og það eru hægt að hafa þá úti á sumrin. Kjötið er sagt verða fitusprengdara og meyrara en á nautum þar sem vaxtarhraðinn er hægari. Uxunum er slátrað um 20-22 mánaða aldur og skrokkarnir fá að hanga í tvær vikur áður en þeir eru unnir. Þannig nær kjötið að brotna og meyrna meira en ella.
Rangar Finnur skimar yfir kúahjörðina.
Glænýtt fjós er á Litla-Ármóti þar sem aðbúnaður er með því besta sem gerist.
Ungkálfur bregður á leik í nýja fjósinu á Litla-Ármóti.