Deila þessari síðu
Glænýir íslenskir matar- og ferðaþættir verða á dagskrá Ríkissjónvarpsins á næstu vikum. Þættirnir heita Veislan en þar munu félagarnir Gunnar Karl Gíslason matreiðslumeistari á Dilli og Halldór Laxness Halldórsson, Dóri DNA, vínspekúlant og skemmtikraftur ferðast um landið og njóta lífsins lystisemda.
„Þættirnir fjalla um mat, landið okkar, landslagið, matar- og tónlistarmenningu á Íslandi í gegnum fólkið sem byggir landið,“ segja þeir félagar.
Segja sögur, kynnast fólki og fjölbreyttu hráefni
Gunnar og Dóri heimsækja meðal annars minna þekkta staði á landinu, kynnast áhugaverðu fólki á leiðinni þar sem þeir fræðast um menningu, listir, mat og nýsköpun við nýtingu náttúruauðlinda okkar.
Á leið sinni á hvern stað, safna þeir kunnáttu og hráefni til veisluhalda sem Gunnar Karl matreiðir í lok hvers þáttar af sinni alkunnu snilld með dyggri aðstoð heimamanna. Oftar en ekki fá áhorfendur að njóta tónlistar þeirra sem eru á staðnum á meðan hópur fólks nýtur afraksturs ferðalagsins í Veislu.
Riðið á vaðið á Norðurlandi
Í fyrsta þætti, sem er á dagskrá sunnudaginn 24. apríl, er förinni heitið norður í land. Farið er á Öngulsstaði, Hauganes, Siglufjörð og Velli í Svarfaðardal þar sem blásið er til veislu fyrir nágrannana í gamla fjárhúsinu. Seinna er haldið austur á land, á Suðurland, Vestfirði og víðar.
Kristinn Vilbergsson, einn framleiðenda Veislunnar og hugmyndasmiður, segir að þættirnir, sem eru fimm talsins, séu óður til sveitarinnar, matarins og landsbyggðarinnar allrar.
„Gunni Kalli og Dóri eru miklir vinir og í þáttunum er þetta svolítið þannig að sá eldri og reyndari kennir þeim yngri og óreyndari,“ segir hann.
Allir lögðust á eitt
Kristinn segir að framleiðsluferlið hafi gengið mjög vel enda hafi undirbúningur verið góður.
„Við ferðuðumst um landið snemmsumars og tókum líka skorpu um haustið. Náðum á milli covid-afléttinga og áður en túristatraffíkin hófst fyrir alvöru. Það var svolítið sérstakt og gefur þáttunum annað yfirbragð fyrir vikið.”
“Það sem stendur hins vegar upp úr eftir gerð Veislunnar var hvað allt fólk var ótrúlega hjálplegt og vildi allt fyrir okkur gera. Það benti okkur líka á fleiri áhugaverða aðila sem við þekktum ekki og munu birtast í þáttunum.“
Veislan verður á dagskrá Rúv á sunnudagskvöldum og hefjast þættirnir klukkan 20.35. Meðfylgjandi myndir eru teknar í tökuferlinu og heiðurinn af þeim eiga ljósmyndararnir Lilja Jónsdóttir og Juliette Rowland.