Deila þessari síðu
Það geta flestir ræktað eigin matjurtir ef viljinn er fyrir hendi. Mikið af áhugaverðu efni um kryddjurtir má finna á Facebook-hópnum „Áhugafólk um kryddjurtaræktun“. Hún Alda Björg Lárusdóttir á Egilsstöðum deildi á dögunum góðum ráðum um ræktun á basilíku sem margir hafa dálæti á enda mikið notuð í matargerð.
Það er geggjað að eiga alltaf basilíku, allan ársins hring. Hún framleiðir mest á sumrin, en ef hún er orðin sterk undir veturinn, þá gagnast hún líka vel yfir vetrartímann.
„Ég er búin að klúðra basilíkum á allan hátt sem er hægt en hef undanfarin ár ræktað þær eftir leiðbeiningum sem ég fann á netinu, um hvernig ætti að klippa basilíku til að fá hana til að vaxa og þétta sig,“ segir Alda sem hefur bæði sett niður fræ og notað basil sem hún hefur keypt í Bónus.
„Hvort tveggja hefur virkað vel. Mér líkar almennt betur að nota fræ því þá set ég þau í góða mold og veit að plantan hefur ekki verið ræktuð með einhverjum eiturefnum. En að því sögðu finnst mér basilíkan úr búð yfirleitt bara mjög góð og mæli með að stytta sér leið ef fólk vill prófa að rækta plöntuna áfram.“
Alda segir að ef fræ eru sett í mold sé fínt að nota lítil sáðbox með mörgum litlum hólfum, setja eitt fræ í mold í hvert hólf, vökva rækilega og hylja svo bakkann með plastpoka eða plastfilmu. Plönturnar láta síðan á sér kræla innan nokkurra daga. Það þarf að passa að vökva vel og gott er að láta sáðboxið standa í boxi sem er alltaf með botnfylli af vatni í og snúa í suður.
Basilíka elskar sól og birtu
Þegar plönturnar eru orðnar pínu kramdar vegna plastfilmu má taka hverja plöntu og setja í stærri pott með góðri mold.
„Ef basilíkan er keypt í búð þá er gott að taka allar litlu plönturnar strax í sundur, varlega með gaffli. Svo er hver planta sett í sinn pott með góðri mold,“ segir Alda.
„Plantan verður sterk og hörð með tímanum, og laufin verða stór og girnileg. Hún verður að fá sól og birtu til að vaxa sem mest.“
„Aðalmálið alltaf er að vökva vel, moldin á ekki að skraufþorna. Svo finnst mér þær alveg þakka fyrir sig ef þær fá nóg pláss og stóran pott.“
Ekki taka bara stóru blöðin
Alda segir að aðalmistökin sem hún hafi gert, og hún veit að aðrir gera líka, er að tína alltaf stærstu blöðin af hverri basilspíru, þannig að eftir standi langur stilkur og lítil blöð efst.
„Þá endar plantan á að deyja og ekkert verður úr henni. Hún þarf stóru laufin til að vinna fyrir sig, safna sólargeislum og krafti. Því er mikilvægt að fyrstu stóru laufin fái að vera í friði, sérstaklega fyrst,“ segir Alda og bendir á að það eigi ekki að plokka blöðin af, heldur klippa stilkinn eins og sést á mynd.
Gott vökvunarráð
Alda á heimatilbúið ráð ef fólk fer í ferðalag og er ekki til staðar til að vökva plöntuna sína.
„Ég prófaði eitt sinn að vökva afskaplega vel, taka plastpoka og setja yfir plöntuna og binda utan um pottinn til að búa til hálfgert gróðurhús fyrir plöntuna. Þá gufar vatnið upp innan pokans og vökvar moldina aftur. Mínar plöntur hafa lifað fjarveru mína af og verið sperrtar og flottar þegar ég kom heim. Svo ég mæli með að prófa það – líka við fleiri blóm,“ segir Alda Björg Lárusdóttir á Egilsstöðum.