Deila þessari síðu
Hægeldun er dásamleg leið til þess að elda ódýrari bitana. Langur eldunartími gefur meira bragð og kjötið fær góðan tíma til að meyrna. Á mínu heimili er þetta gjarnan helgarsport, að byrja jafnvel að undirbúa sunnudagsmáltíðina á laugardagskvöldi og leyfa svo matnum að malla allan liðlangan daginn. Þegar ilmurinn hefur leikið um íbúðina frá morgni til kvölds er óskaplega gaman að setjast niður og fá loksins að smakka á einhverju gómsætu.
Að sjálfsögðu eru margar aðferðir mögulegar við hægeldun. Til eru sérstakir rafmagnspottar sem eru hugsaðir gagngert í þetta verkefni. Það er hægt að stilla helluna eða ofninn á lágan hita og láta þar við sitja. Sous vide, sem var helsta tískubylgjan fyrir nokkrum árum, er enn önnur aðferð. En mín uppáhalds leið til hægeldunar er án efa í Wonderbag.
Undrapokinn frá Afríku
Fyrirtækið Wonderbag var stofnað í Suður-Afríku árið 2008.
Hugmyndin er einföld: einangraður poki sem heldur hita á íláti án þess að þurfa orkugjafa.
Þetta er svo sem ekki glæný hugmynd; í heimsókn í Glaumbæ í Skagafirði sá ég nokkuð sem var kallað moðkassi sem virkaði á sambærilegan hátt. Það var kassi, einangraður með moði, sem passaði utan um stóran pott. (Við hjónin höfum því tekið upp á því að kalla pokann okkar moðpoka). Wonderbag er nettari nútímaútgáfa í skrautlegum litum sem endurspegla upprunasvæðið, en fyrirtækið leggur áherslu á samstarf við minni textílframleiðendur til þess að styðja við innlenda atvinnu í suðurhluta álfunnar og þá sérstaklega starfsgreinar þar sem konur eru í meirihluta.
Matargerð sem bætir heiminn
Maturinn er undirbúinn, settur í pott eða fat sem hægt er að loka, suðunni náð upp og látið sjóða í stutta stund og svo er ílátið fært yfir í pokann og honum lokað. Pokinn heldur hita á matnum í allt að átta tíma. Þegar matartíminn nálgast er ílátið tekið úr pokanum, skerpt örlítið á hita ef þurfa þykir og þá er allt klárt. Það er einstaklega þægilegt að geta látið matinn malla tímunum saman án þess að hafa nokkrar áhyggjur af því að eitthvað brenni við, hvað þá mögulegri eldhættu. Eldiviður er víða af skornum skammti og að geta sparað í kyndingu er verðmætt, auk þess sem það er hiklaust betra fyrir heiminn að við nýtum öll sparneytnari leiðir.
Fyrir hvert heimili sem notar pokann þrisvar í viku minnkar kolefnislosun um allt að hálft tonn á ári. Það munar um minna.
Það er einnig vert að taka það fram að í okkar velmegunarlandi er þetta kannski bara einföld leið til þess að elda góðan mat án þess að hafa mikið fyrir honum en víðsvegar í heiminum getur það skipt sköpum að spara sér tíma, fyrirhöfn og eldivið við matreiðslu. Þetta frelsi er sérstaklega mikilvægt fyrir konur í ákveðnum samfélögum því þær hafa oftast verið bundnar við eldhússtörf og eldiviðarsöfnun. Ef maturinn sér um sig sjálfur er hægt að nýta daginn í menntun og aðra vinnu sem annars gæfist ekki færi á. Wonderbag er að stórum hluta góðgerðarsamtök því þau leggja sig fram við að skapa störf þar sem þörfin er mikil, búa til öryggi og möguleika fyrir konur og fyrir hvern poka sem er seldur er annar niðurgreiddur fyrir heimili sem hefði annars ekki efni á honum.
Góður matur, lítil fyrirhöfn, eftir hverju ertu að bíða?
Ég held ég geti slegið því föstu að síðan þessi dásamlegi poki kom á heimilið hafi hann verið eitt allra mest notaða hjálpartæki eldamennskunnar. Hann hefur oft bjargað okkur þegar vinnudagar eru langir og tíminn fyrir kvöldmatinn er takmarkaður. Við höfum eldað súpur, skanka, gúllas, grísabóg og jafnvel pastarétti í honum og hann klikkar aldrei. Einu sinni settum við meira að segja súpu í pott, skelltum pokanum í skottið á bílnum og keyrðum upp í sumarbústað og mikið ósköp var indælt að þurfa ekki að elda eftir langan bíltúr. Þegar þetta er skrifað er ég pakksödd eftir enn einn gómsætan réttinn sem kom upp úr pokanum og hann verður ekki sá síðasti. Wonderbag er algjört undur.
Helstu kostir:
- umhverfisvænt og sparneytið
- öruggt
- hentar fyrir fjölbreytta matargerð
- styrkir mikilvæg málefni
Helstu gallar:
- örlítið plássfrekt í geymslu
Hægt er að lesa nánar um Wonderbag á vefsíðunni wonderbagworld.com