Deila þessari síðu
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands býður upp á námskeið um sveppi og sveppatínslu í samstarfi við fræðslusetrið Iðuna í lok ágúst.
Sveppatínsla nýtur sívaxandi vinsælda og nú er að renna upp sá tími sem hægt er að finna góða matarsveppi víða um land.
Í lýsingu á vef Endurmenntunar LbhÍ segir að námskeiðið henti öllum sem vilji fræðast um sveppi, hverjir henti í matargerð og hverjir ekki.
„Námskeiðið skiptist í tvennt, fyrri hlutinn er á formi fyrirlestra og sýnikennslu í greiningu og frágangi sveppa en í seinni hlutanum er farið út í skóglendi í verklega kennslu. Nemendur fara þá út ásamt kennara og fá aðstoð og kennslu við þær aðferðir sem notaðar eru til að tína matarsveppi. Þá læra nemendur að greina og hreinsa sveppi. Fjallað verður um helstu geymsluaðferðir sveppa og eins helstu nýtingarmöguleika.“
Nemendur eru hvattir til að mæta í fatnaði sem hæfir veðri, taka með sér körfur eða fötur til að tína sveppina í, stækkunargler eða lúpur sem stækka 10-20x, heppilegan hníf fyrir hreinsun og ílát fyrir uppskeruna til að taka með heim.
Kennari er Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir en hún hefur getið sér gott orð sem helsti sveppafræðingur landsins.
Námskeiðið verður haldið laugardaginn 27. ágúst frá kl. 10.00 til 17.00 í húsnæði Landbúnaðarháskólans á Keldnaholti í Reykjavík og nærliggjandi skóglendi.
Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á vef Endurmenntunar LbhÍ en þar er jafnframt vakin athygli á því að mörg stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja nám og námskeið.