Deila þessari síðu
Innviðaráðuneytið hefur úthlutað 120 milljónum króna í styrki til átta verkefna sem ætlað er að efla byggðir landsins. Greint er frá því að vef ráðuneytisins að styrkirnir renni til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.
Meðal verkefna sem tengjast matvælaframleiðslu eru styrkir til jarðhitanýtingar í gróðurhúsum í Öxarfirði og til uppbyggingar grænna iðngarða á Reykhólum.
Gróðurhús í Öxarfirði
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, fá styrk að fjárhæð 1.500.000 kr. á árinu 2022, en þetta er framhaldsverkefni. Ráða á verkefnisstjóra með aðsetur á Kópaskeri. Verkefnið snýst um nýtingu auðlinda í Öxarfirði, með jarðhita í sandinum og nýtingu hans fyrir gróðurhús.
Grænir iðngarðar á Reykhólum
Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk að fjárhæð 25.000.000 kr. árin 2022-2023. Hugmyndin með grænum iðngörðum er að auka aðdráttarafl svæðisins til fjárfestinga og nýsköpunar og auka þannig fjölbreytni í atvinnulífi og nýtingu á auðlindum svæðisins. Þörungamiðstöð Íslands verður kjarninn í iðngörðunum.
Heimafólk fái aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna
Alls bárust 24 umsóknir um styrki að fjárhæð tæpar 816 m.kr. fyrir árin 2022-2026. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra um úthlutun. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.
Í frétt á vef innviðaráðuneytisins segir að alls hafi 593 m.kr. verið ráðstafað til verkefna fyrir árin 2018-2024. Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna.
„Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur eru meðal þess sem lagt er til grundvallar við mat á umsóknum í tíu matsþáttum,“ segir í tilkynningu.