Deila þessari síðu
Árlega fellur til mikið magn af ærkjöti á Íslandi en það er sjaldan á boðstólum í verslunum nema sem vinnsluvörur eða í takmörkuðu magni. Þeir sem einu sinni hafa smakkað ærkjöt vita að það er bæði meyrt og bragðmikið sé það rétt verkað og af góðum gæðum.
Heildarframleiðsla á kindakjöti er um 9.400 tonn á ári en þar af eru um 1.170 tonn af ær- og hrútakjöti. Bændur hafa því miður fengið skammarlega lágt verð fyrir kjötið í afurðastöð, svo lágt að það dekkar vart hefðbundinn sláturkostnað, hvað þá að borga bóndanum laun. Þetta er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa á síðustu árum.
Nokkrir bændur og kjötvinnsluaðilar hafa þó á síðustu misserum unnið að því að gera aukin verðmæti úr ærkjötinu. Meðal þeirra eru bændurnir í Ásgarði í Hvammssveit í Dölum sem bjóða nú ærkjöt til sölu í takmörkuðu magni á Matlandi. Kjötið er unnið í kjötvinnslunni í Miðskógi í Dalabyggð en ánum er slátrað í Sláturhúsi KVH á Hvammstanga.
Á bænum Ásgarði (stígvélið á landakortinu, nánar tiltekið táin) búa Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir ásamt dætrum sínum Eydísi Helgu og Ernu Diljá. Þau tóku við búinu af foreldrum Eyjólfs í upphafi árs 2017 en sama fjölskyldan hefur búið á jörðinni frá 1810 og er Eyjólfur af áttundu kynslóð bænda á bænum.
Um 400 vetrarfóðraðar kindur eru í Ásgarði en að auki prófuðu ábúendur grænmetisræktun í fyrsta skipti sumarið 2022. Á jörðinni er líka stunduð nytjaskógrækt og hefur um 15.000 plöntum verið plantað síðustu tvö sumur.
„Í sauðfjárbúskapnum er markmiðið að rækta afurðagott fé. Undanfarin ár hefur fallþungi lamba verið rúm 18 kg ásamt góðri holdfyllingu lamba sem er heldur yfir landsmeðaltali. Sauðburður byrjar viku af maí og reynt er að hafa ærnar inni ásamt lömbum fyrstu vikuna eftir burð, þá fara ærnar á beit á túnin heima en byrjað er að sleppt á úthaga í byrjun júní þegar gróður er tilbúinn,“ segir Eyjólfur Ingvi.
Sumarhagarnir eru í næsta nágrenni bæjarins þar sem sagan er við hvert fótmál enda sögusvið margra Íslendingasagna nátengt Dölunum.
Byrjað er að smala fé heim snemma í september og þau lömb sem hafa náð þokkalegum þunga send í slátrun. Léttari lömbin eru geymd á góðri beit (grænfóður, nýrækt, áborin há) þar til í október.
Fjölskyldan í Ásgarði reyndi sig við útiræktun grænmetis með ágætum árangri síðasta sumar. Lóa er kampakát með uppskeruna. Mynd / úr einkasafni
Með skógræktinni í Ásgarði hyggjast Lóa og Eyjólfur með tíð og tíma ná fjölbreyttum markmiðum. Ætlunin er meðal annars að nýta skóginn til beitar ásamt því að gefa kindunum meira skjól fyrir veðrum og vindum á vorin og haustin. Einnig horfa bændurnir til þess að með skógræktinni verði beitarlandið fjölbreyttara.
Túnin í Ásgarði í Dölum. Mynd / úr einkasafni