Deila þessari síðu
Matland býður til sölu ungnautakjöt af hreinræktuðu Aberdeen Angus holdanauti frá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands á Stóra-Ármóti í Flóa. Kjötgæðin eru rómuð og kjötnýting mjög góð.
Fallþungi nautsins sem Matland fékk í sinn hlut reyndist vera tæp 330 kg og flokkaðist í gæðaflokkinn UNR+3+. Nautið var einungis tæplega 14 mánaða við slátrun. Það var látið hanga í tvær vikur og síðan var það unnið hjá Villt & alið á Hellu.
Aðeins einn gripur í boði
Gripurinn er til kominn með fósturvísaflutningi í hreinræktaða Angus-kú og alinn á Stóra-Ármóti. Hann þótti sérlega glæsilegur á velli en því miður reyndust gallar í afturklaufum. Þess vegna var ákveðið að nota nautið ekki í áframhaldandi ræktunarstarf eins og til stóð.
Eins dauði er annars brauð og nú fá viðskiptavinir Matlands að prófa hreinræktað íslenskt holdanautakjöt!
Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að Angus-kynið henti vel þar sem áhersla er lögð á nýtingu beitar og gróffóðurs ásamt góðum móðureiginleikum, mjólkurlagni og léttan burð.
Með tíð og tíma mun svo fjölga Angus-gripum á Íslandi, sérstaklega blendingum, þ.e. þeim sem eiga móður af íslenska kúakyninu og föður af hreinræktuðu Angus-kyni.
Holdagripir á Stóra-Ármóti í Flóa. Mynd / TB
Angus með yfirburði
Tilgangurinn með innflutningi fósturvísa og sæðis til Íslands er að búa til nýja blendinga Angusnauta og íslenskra gripa til að efla kjötframleiðsluna. Nú þegar sést að árangur af innflutningi erfðaefnis sýnir stórfelldar framfarir í framleiðslu nautakjöts hér á landi. Gripirnir vaxa hraðar og þurfa skemmri tíma til að ná mun betri holdfyllingarflokkun. Það þýðir aukna hagkvæmni í ræktunni, t.d. betri nýtingu á fermetra í gripahúsum, minni fóðurnotkun og vinnu við hvern grip.
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands á Stóra-Ármóti í Flóa. Hér eru kynbótanautin alin við fullkomnustu aðstæður í sóttkví. Mynd / TB
Það er álit sérfræðinga að aukin blöndun Angus-erfðaefnis inn í íslensku ræktunina geti gert íslenska nautakjötsframleiðslu að arðbærari atvinnugrein en hún er í dag. Á undanförnum árum hefur rekstur greinarinnar því miður skilað neikvæðri afkomu fyrir bændur.
Angus-nautakjötið sem Matland býður upp á verður afhent þriðjudaginn 11. júlí. Matland keyrir kjötið út til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu, afhendir í verslun Pylsumeistarans við Hrísateig 47 og kemur sendingum á landflutningadeild Samskipa. Allt kjötúrvalið má sjá hér.