Deila þessari síðu
Beint frá býli (BFB) og Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) hafa undirritað samkomulag sem kveður á um náið samstarf. Meðal annars munu félögin vera með sameiginlegan fjárhag og framkvæmdastjóra.
Samstarfið var innsiglað á aðalfundi Beint frá býli, sem haldinn var sunnudaginn 24. apríl. Þar var samþykkt mótatkvæðalaust að félagið yrði aðildarfélag inni í Samtökum smáframleiðenda matvæla. Síðarnefndu samtökin voru stofnuð sem regnhlífasamtök þeirra sem framleiða eða láta framleiða fyrir sig matvæli í atvinnuskyni. Beint frá býli var formlega stofnað árið 2008 og í því eru fyrst og fremst smáframleiðendur á lögbýlum.
Áfram sjálfstæð félög
Í fréttatilkynningu frá SSFM og BFB segir að aðildarfélög smáframleiðenda verði áfram sjálfstæð félög með eigin kennitölu, samþykktir og stjórn. Með aðildinni öðlast félagsmenn BFB öll þau réttindi og skyldur sem fullgildir félagsmenn SSFM hafa.
„Framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla, Oddný Anna Björnsdóttir, er framkvæmdastjóri beggja félaga. Stjórnir félaganna áætla að funda að lágmarki tvisvar á ári tengt áætlanagerð, en stefnumótandi markmið og aðgerðaáætlun verða sameiginleg,“ segir í tilkynningu.
Ríflega 200 félagar í samtökunum
Til þessa hafa þónokkrir af félagsmönnum Beint frá býli verið félagar í Samtökum smáframleiðenda matvæla. Félagar í SSFM verða eftir breytinguna ríflega 200 talsins. Alls búa 112 á lögbýli eða 54%, 52 eða 25% á höfuðborgarsvæðinu og 41 eða 20% í bæjarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins.
Félagsmenn BFB munu aðeins þurfa að greiða eitt aðildargjald fyrir aðild að báðum félögum sem er 20.000 kr. Tekjur af félagsgjöldum verða nýtt í rekstur beggja félaga í samræmi við aðgerðaáætlun og skilgreind verkefni.
Þegar félögin sameinast um að sækja um styrki, skrifa umsagnir um þingmál, áskoranir, þátttöku á fundum, ráðstefnum, sýningum o.s.frv. verður það í nafni beggja félaga.