Deila þessari síðu
Það getur verið erfitt að vita hvar á að byrja þegar maður vill temja sér hollari og heilbrigðari lífsstíl. Algengast er þó að endurskoða mataræði sitt. Fjöldinn allur af hugmyndum og leiðum er til þess að komast af stað en hægara sagt en gert að fylgja þeim til lengri tíma. Það er ákveðið matsatriði hvað veldur en það má segja að sumar af þessum leiðum geta verið örlítið heftandi þegar ekki má borða hin og þessi hráefni. Þá er spurning hvort það sé ekki til leið til þess að temja sér heilbrigt mataræði og læra hvernig er hægt að nýta sér holl og fersk hráefni til gómsætrar matargerðar. Ein leiðin sem hefur verið áberandi undanfarið, sérstaklega á samfélagsmiðlum, er Græna gyðjan.
Hvað er Græna gyðjan og hvernig get ég notað hana?
Græna gyðjan er bæði salat og salatdressing sem má að vissu leyti líkja við guacamole. Það er hægt að útfæra gyðjuna í mörgum myndum sem hjálpar manni að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Um leið og maður er búinn að læra á hráefnin, hvernig er hægt að útfæra þau á þann hátt sem manni líkar best, þá verður sífellt einfaldara að útbúa fleiri hollar mataruppskriftir. Eins og nafnið gefur til kynna er bæði salatið og dressingin græn á lit.
Í salatinu er aðaluppistaðan grænt grænmeti eins og kál, gúrkur, grænar paprikur, vorlaukur og einfaldlega það sem mann lystir hverju sinni. Það eru engar fastar reglur um það!
Dressingin samanstendur yfirleitt af grískri jógúrt, graslauk, basiliku, hvítlauk, dill og lime. Svo er algjört frelsi til þess að prófa sig áfram og sjá hvað hentar bragðlaukum hvers og eins. Það góða við þessa uppskrift er að hún getur hentað hverjum sem er því það er hægt að bæta hverju sem maður vill ofan í hana, svo lengi sem það er ferskt, hollt og helst grænt.
Notaðu ímyndunaraflið! Það er þess virði…
Að prófa sig áfram með Grænu gyðjuna er frábær leiðarvísir til þess að kynnast betur hollum og ferskum hráefnum. Þá áttar maður sig líka á því hvað hentar manni sjálfum best. Svo skemmir það ekki fyrir að liturinn er svo ferskur og bjartur að maður getur ekki annað en komist í heilsugír og tekið á mataræðinu.
Dæmi um notkun gyðjunnar er að maður getur borðað salatið og dressinguna eina og sér sem orkuríka máltíð. Hægt er að nota hana sem ídýfu með öðru grænmeti, snakki og fleiru. Og svo er hægt að nota dressinguna sem ferska sósu með alls konar mat eins og kjúkling, fisk eða í raun hverju sem er. Þetta er hvatningin sem okkur vantar.
Það er aldrei of snemmt að byrja að taka sig í gegn og læra hvernig maður getur nýtt sér öll þau fersku hráefni sem við eigum hérna á Íslandi.
Það eina sem maður þarf er ímyndunaraflið, frelsið og grænt grænmeti!