Deila þessari síðu
Fátt er þjóðlegra og betra en íslensk kjötsúpa. Matland býður til kjötsúpuveislu þar sem nýtt grænmeti og lambakjöt af nýslátruðu frá bænum Miðhúsum á Ströndum er í aðalhlutverki. Það eru margar uppskriftir til af kjötsúpu en við mælum með að fólk eldi drjúgan skammt og bjóði fólki í mat. Sumum finnst kjötsúpan raunar best við aðra og jafnvel þriðju upphitun þannig að það margborgar sig að taka stóra pottinn fram. Hráefnið í kjötsúpukassa Matlands dugar fyrir 6-8 manns.
Kjötsúpa Matlands – uppskrift fyrir 6-8 manns
Hráefni
1 kg lambakjöt á beini
500 g lambagúllas af framparti
4-5 l vatn
6 stk. kartöflur
2 stk. blaðlaukur
6 stk. gulrætur
2 stk. meðalstórar rófur
1 búnt af steinselju
160 g sellerí
1 gulur laukur
Þurrkaðar súpujurtir eftir smekk.
Salt og pipar eftir smekk
Valkvætt: 1 dl hrísgrjón, perlubygg eða haframjöl (má sleppa).
Aðferð
Látið kjötbitana (sem eru með beini) í kalt vatn og látið suðuna koma upp og sjóðið í nokkrar mínútur. Fleytið þá af alla froðu og eggjahvítuefni sem koma upp á yfirborðið. Ef þið viljið tærari súpu er ágætt ráð að hætta suðunni eftir 5 mínútur, hella vatninu í vaskinn og skola bitana í sigti. Byrja svo aftur með nýtt kalt vatn og láta suðuna koma upp. Fleytið af auka fitu ef þið viljið fituminni súpu. Bætið gúllasbitunum út í og látið malla í um 30-45 mínútur.
Saxið lauk, blaðlauk og steinselju. Skerið rófur, sellerí og gulrætur í jafna bita og setjið allt út í súpuna ásamt þurrkuðum súpujurtum. Kryddið með salti og pipar. Látið sjóða við lágan hita í a.m.k. hálfa klukkustund til viðbótar. Kartöflurnar er ráðlegt að sjóða sér, flysja, skera í bita og bæta við í restina.
Það er smekksatriði hvað fólk vill hafa grænmetið mikið eldað. Ef þið viljið hrísgrjón, perlubygg eða haframjöl út í súpuna þá er best að setja þau hráefni út í þegar 20 mínútur eru eftir af suðutímanum.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði