Deila þessari síðu
Laufey Rós Hallsdóttir matráður á Eskifirði fær seint nóg af fiskmeti. Hún deilir með lesendum Matlands frábærri og einfaldri uppskrift að ofnbökuðum fiski þar sem pestó, ostur og tómatar leika lykilhlutverk.
„Það er alveg sama hversu oft ég borða fisk eða elda fyrir aðra, hann er alltaf jafn góður! Eitt hollasta og besta hráefni sem við Íslendingar höfum upp á að bjóða. Það er því ekki seinna vænna en að henda inn einni uppskrift af fiskrétti sem ég útbjó í vinnunni fyrir stuttu, við aldeilis góðar undirtektir.“
Athugið að þetta er nokkuð stór uppskrift og dugar fyrir 5-8 manns.
Hráefni
- 1 ½ kg þorskur, ýsa eða annar sambærilegur hvítfiskur
- ½ dolla papriku-smurostur
- 350 g rjómaostur
- Um 1 – 1 ½ dl gott rautt pestó
- 1 tsk salt
- 1 tsk pipar
- 1 tsk dill (þurrkað er fínt)
- Tómatar eftir þörfum, skornir í sneiðar
- Rifinn ostur til að setja yfir
- Smá pipar og þurrkuð basilika í lokin.
Aðferð
Byrjið á að raða fiskflökunum í eldfast form.
Hrærið vel saman rjómaosti, smurosti, pestó, salti, pipar og dilli.
Raðið þar næst tómatsneiðum fallega yfir fiskinn…
… og svo er rifna ostinum stráð yfir eftir smekk.
Setjið í heitan ofn við ca 180°C í um það bil 20 mínútur.
Berið fram með góðum kartöflum eða hrísgrjónum, fersku salati og góðu brauði. Vel smurt rúgbrauð hentar sérlega vel!
Verði ykkur að góðu.
-
Hornfirskar kartöflur – Helga – 5 kg2.540 kr.