Deila þessari síðu
Matland hefur tekið í sölu takmarkað magn af ungnautakjöti frá Hvammi í Ölfusi sem er selt undir vörumerkinu Ölnaut. Kjötið er frábrugðið öðru nautakjöti á markaðnum fyrir þær sakir að nautin eru alin á bjórhrati, byggi og íslensku heyi alla sína ævi. Síðustu þrjá mánuðina fá þau einn til tvo lítra af bjór á dag sem hrært er út í bygg sem ræktað er á búinu. Eldið gerir það að verkum að nautin þyngjast vel, verða holdmikil og kjötið fallega fitusprengt.
Í Hvammi búa bændurnir Pétur Benedikt Guðmundsson og Charlotte Clausen. Sonur þeirra Davíð Clausen starfar hjá Ferskum kjötvörum og sér jafnframt um nautaeldið.
Ribeye, T-bone, lundir, skirt og Tomahawk
Matland mun afhenda gæðasteikur frá Hvammi fimmtudaginn 9. febrúar en forsalan er hafin að hluta í vefverslun Matlands. Boðið er upp á ribey, T-bone, lundir, skirt og Tomahawk af ungnautakjöti.
Hægmeyrnað hnossgæti fyrir sælkera
Þessu til viðbótar verða nokkur kíló til sölu af hægmeyrnuðu ribeye sem búið er að verkast í 5 vikur í hitastýrðum kæli hjá Ferskum kjötvörum í Reykjavík. Segja má að þar sé einstök vara á ferðinni sem matgæðingar ættu að kunna vel að meta.
„Þessi glæsilega steik, sem er með ríku „dry age“ bragði, er best lýst eins og vel gerjuðum osti með smá hnetukeim – og lugnamjúkt auðvitað,“ segir Davíð Clausen Pétursson bóndi í Hvammi.
Ölnautið sem verður afhent fimmtudaginn 9. febrúar er ferskt og fullmeyrnað og því tilbúið til eldunar. Matland afhendir nautakjötið í verslun Pylsumeistarans við Hrísateig 47 á milli kl. 16 og 18 eða keyrir út til þeirra sem óska eftir heimsendingu. Sent er um allt land með vöruflutningabílum Samskipa.