Deila þessari síðu
Íslandsstofa, í samstarfi við viðskiptafulltrúa Íslands í Norður-Ameríku, hyggur á þátttöku í Fancy Food Show í New York í sumar. Íslenskum fyrirtækjum er boðið að slást í hópinn en sýningin er ein sú stærsta á sviði sérvöru (speciality foods) í Norður-Ameríku. Að sögn skipuleggjenda hjá Íslandsstofu eiga flest íslensk matvæli heima á sýningunni. Sýningin er haldin í Javits Center dagana 12.-14. júní en þeir sem vilja taka þátt þurfa að skrá sig fyrir 1. apríl hjá Íslandsstofu.
„Framleiðendum og útflytjendum matvæla gefst kostur á að kynna vörur sínar á glæsilegu sýningarsvæði Íslands og tengja sig þannig betur við íslenskan uppruna. Þátttaka í sýningunni er gott tækifæri til að koma á viðskiptasamböndum og auka sölu í Bandaríkjunum. Á sýningunni taka þátt yfir 2.600 framleiðendur frá 54 löndum, innflytjendur og dreifingaraðilar og um 200.000 sérvörur eru kynntar,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu.
Kostnaður og skráning
Gjald fyrir þátttöku fer að hluta eftir fjölda þátttakenda, en árið 2019 var kostnaður um 600.000 kr. á hvert fyrirtæki. Kostnaður vegna ferðalaga, uppihalds, sendinga og annar tilfallandi kostnaður er ekki innifalinn í þátttökugjaldi.
Áhugasamir um að taka þátt eru beðnir að hafa samband fyrir 1. apríl nk. við Kristinn Björnsson, kristinn@islandsstofa.is.