Deila þessari síðu
Íslenskir ostar fengu jákvæða athygli á Heimsmeistarakeppni osta sem fram fór í Wisconsin í Bandaríkjunum dagana 1.-3. mars. Osturinn Feykir 24+ úr Skagafirði var á meðal þeirra tíu efstu sem kepptu um sjálfan heimsmeistaratitilinn í flokki eldri Gouda-osta og verður það að teljast góður árangur.
Heimsmeistarakeppnin er haldin annað hvert ár en hún var fyrst haldin árið 1957. Í ár voru sendir til keppni 2.978 ostar frá 29 löndum og 33 fylkjum innan Bandaríkjanna. Í dómnefnd, sem telur um 60 manns, sitja ostameistarar, mjólkurfræðingar, fulltrúar stærstu verslanakeðjanna, fulltrúar neytenda og aðrir fagaðilar.
Mjólkursamsalan segir frá því á Facebook-síðu sinni að mikil natni sé lögð í framleiðslu á Feyki 24+ og tekur allt ferlið meira en 24 mánuði, en það er tíminn sem osturinn þarf til að ná sínum einstöku eiginleikum í áferð og bragði.
Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki, sem er einn af þeim sem eiga heiðurinn af Goðdala-ostunum, segir Feyki 24+ flaggskipið í hópi sælkeraostanna sem þaðan koma.
„Það telst stórsigur í þessari keppni að lenda í 8. sæti á fyrsta þátttökuári og er því um að ræða stórkostlegan árangur fyrir íslenska ostagerð, en allir ostarnir eru verðugir fulltrúar heimsmeistaratitilsins. Þarna eru mjólkurfræðingar og ostameistarar sem hafa stúderað þessi keppni og eru með mikinn fjölda osta og mjólkurvara ár hvert,“ segir Jón Þór.
Heimsmeistaratitillinn í ár fór til Mountain Dairy Fritzenhaus fyrir svissneskan Gruyére en í flokknum sem Feykir 24+ keppti í sigraði hollenskur Roemer Sweet frá Van der Heiden Kaas B.V. Raunar voru Hollendingarnir í þremur efstu sætunum enda Gouda-ostagerð þeirra sérgrein.