Deila þessari síðu
Auðvitað er hægt að gera flest það sama úr hreindýrahakki og t.d. nautahakki. Best er þó að krydda ekki mjög mikið til að kæfa ekki hreindýrabragðið. Magurt hreindýrahakk getur orðið býsna þurrt þegar það er matreitt og því inniheldur besta hakkið töluvert af fitu – þegar allt kemur til alls er bragðið ekki síst í fitunni – en jafnvel þótt það sé ágætlega feitt er oft til bóta að bæta t.d. smjöri eða rjóma í farsið. Stundum er notað feitt beikon en þá getur eitthvað af hreindýrabragðinu horfið.
Best er að farsið sé fremur lint, þá verða bollurnar safaríkari. Og það er ekki gott að nota hrærivél eða önnur slík tæki til að hræra farsið saman, það getur þá orðið þurrt.
Klassískar hreindýrabollur
- 500 g hreindýrahakk
- 50 g smjör (meira ef hakkið er fremur magurt)
- 1 laukur
- 1 tsk salt
- ¼ tsk pipar
- smáklípa af cayennepipar (má sleppa)
- 2-3 timjangreinar eða 1 tsk þurrkað timjan
- 3 brauðsneiðar, skorpulausar, eða eftir þörfum
- 1 egg
- olía og smjör til steikingar
Aðferð
Bræddu smjörið á pönnu. Saxaðu laukinn smátt og láttu hann krauma í smjörinu þar til hann er mjúkur. Saxaðu laufin af timjaninu, sé það ferskt. Bættu timjani, salti, pipar og cayennepipar á pönnuna, hrærðu vel og taktu hana af hitanum. Rífðu brauðsneiðarnar niður, settu þær í matvinnsluvél eða blandara og láttu ganga þar til brauðið er orðið að mylsnu. Settu hana í skál, skafðu allt af pönnunni og blandaðu saman við ásamt egginu, og settu svo hakkið út í og blandaðu vel saman, helst með höndunum (það er best að hræra sem minnst því að það getur gert bollurnar þurrar).
Farsið á að vera fremur lint, þó þannig að bollurnar haldist saman á pönnunni. Bættu við meiri brauðmylsnu ef það er of lint, einni eggjarauðu eða mjólkurskvettu ef það er fremur þurrt. Gott er að steikja eina bollu úr farsinu til að athuga hvort þarf að krydda hana meira.
Mótaðu litlar bollur (það gætu komið um 30 bollur úr þessari uppskrift).
Hitaðu smjör og olíu á pönnu, settu bollurnar á hana og steiktu þær við meðalhita á þremur hliðum í 2-3 mínútur á hverri. Snúðu þeim gætilega svo að þær losni sem minnst í sundur. Þær verða meðfærilegri ef notað er meira af brauðmylsnu en um leið þurrari og bragðminni.
Berðu bollurnar fram t.d. með pasta, böðuðu í góðri ólífuolíu, ásamt basilíku og vel þroskuðum tómötum, eða með góðri tómat-kryddjurtasósu og/eða kartöflustöppu.

-
Grænmeti í áskrift –Frá: 5.320 kr. / á mánuði