Deila þessari síðu
Maður borðar almennt minna þegar maður borðar sem mest óunnin næringarrík matvæli eins og gróft korn. Líkaminn verður fyrr og lengur saddur og sæll af næringu en innantómum hitaeiningum.
Hér er frábær uppskrift að linsubaunasúpu og uppáhaldsbrauðinu, pönnubrauði með grófu spelti.
Linsubaunasúpa – Uppskrift
1 gulur laukur (má nota blaðlauk)
2 hvítlauksrif (ég set oft meira og má líka sleppa)
2 msk paprikukrydd (vænar frekar en tæpar)
2 lárviðarlauf
1 rauð/gul paprika (ég sleppi henni á veturna þegar ekki er til íslensk)
½-1 sæt kartafla (fer eftir stærð)
1 kúrbítur
1 lítill brokkolíhaus
2 dl rauðar linsur
700 ml vatn
200-400 ml kókosmjólk (aukaefnalaus – alveg nóg 200 ml ef maður er að spara)
400 ml niðursoðnir tómatar eða tómatar í krukku (passata) og um að gera að nota tómata sem liggja undir skemmdum heima í svona súpu
2 teningar af lífrænum grænmetisteningum
Sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk
Skerið lauk og hvítlauk í sæmilega stórum potti (sem tekur um það bil 3 lítra a.m.k.) og mýkið með kryddinu í ólífuolíu eða bara í smá vatni (ódýrara) í smástund.
Skolið grænmetið, skerið í bita og hendið í pottinn jafnóðum. Notið það grænmeti sem þið eigið. Það má alveg nota frosið grænmeti til að spara tíma. Bætið við vatni ef þarf svo ekki festist við botninn.
Skolið linsurnar vel og skellið út í. Setjið svo vatnið, kókósmjólkina og tómatana og látið sjóða í um 30 mínútur. Berið fram með góðu brauði.
Afgang af kókosmjólk í dós þarf að setja í hreina krukku með loki og beint inn í ísskáp. Ef hún verður ekki notuð á næstu 2-3 dögum þarf að frysta hana.
Pönnubrauð – Uppskrift
3 dl gróft spelt
Ögn af salti
1 msk ólífuolía
1 dl heitt soðið vatn
Blandið öllu saman og hrærið aðeins saman með matskeið.
Notið þá hendur og hnoðið betur saman og búið svo til pylsu úr deiginu. Skerið það í um það bil 10 bita og fletjið út með lófanum eða kökukefli í fremur þunnar kökur.
Notið fínt spelti svo ekki festist við borðið. Má nota heilhveiti og hveiti að sjálfsögðu.
Steikið brauðin á þurri pönnu báðum megin þar til bökuð í gegn og þurr á að líta. Berið þau fram með ólífuolíu/hvítlauksolíu og salti.
Heimagerð hvítlauksolía: Pressið hvítlauksrif í krukku og hellið ólífuolíu út á. Líka geggjuð út á pítsur.