Deila þessari síðu
Ég bjó til þessa kjúklingauppskrift fyrir matarboð og rétturinn sló aldeilis í gegn – dásamaður af öllum! Heimagert naan-brauð gerði útslagið en þau voru svo mjúk að þau minntu helst á skýjahnoðra. Ásamt brauðinu var meðlætið krydduð hrísgrjón og létt salat. Ég get sagt í fullri hreinskilni að enginn fór svangur héðan út.
Ég er strax farin að hlakka til að gera þennan rétt aftur. Finn ennþá bragðið af honum síðan í gær og er mjög glöð að það var smá afgangur – því nú þarf ég ekki að elda kvöldmat! Alltaf er maður að græða.
Kjúklinga karrýréttur fyrir 5-6 manns
- 1,2 kg kjúklingabringur (má líka nota læri, þau eru bragðmeiri)
- 250 g gulrætur
- 250 g kartöflur
- 1/3 – 1/2 grasker (e. butternut squash) (fer eftir stærð)
- 1 græn paprika
- 1 rauð paprika
- 1 gulur laukur
- 1 rauðlaukur
- 1-2 chili eftir stærð, skorin í sneiðar
- 3-4 hvítlauksrif, gróflega söxuð
- 20 g ferskur engifer, nokkuð fínt saxað
- 1 búnt vorlaukur
- 1/2 krukka karrýmauk (Chinese Curry paste)
- 1 ½ -2 tsk karrýduft (þau geta verið mis bragðmikil)
- 1 dós kókósmjólk
- 1 ferna kókósrjómi
- 1 dl nýmjólk
- 1 msk graslaukur
- 1 msk basilika
- ½ til 1 tsk salt (smakkið til)
- ½ tsk cayenne-pipar (má sleppa eða hafa minna ef fólk vill)
- ½ msk dill
Afhýðið og skerið graskerið, kartöflurnar og gulræturnar í teningastærð.
Raðið þeim á ofnplötu og veltið upp úr smá ólífuolíu. Saltið og piprið og setjið inn í heitan ofn á 180°C. Bakið í um það bil 20-30 mínútur eða þar til það byrjar að taka smá lit en er ennþá með smá bit í sér. Takið út og leggið til hliðar.
Á meðan þetta er í ofninum, skerið restina af grænmetinu í svipaða stærð.
Skerið kjúklinginn í ágætlega stóra bita, hverja bringu um það bil 6-8 bita, eftir stærðinni á bringunum.
Brúnið létt á heitri pönnu með smá olíu og smá salti og pipar.
Setjið grænmetið í heitan pott með smá olíu og smá klípu af smjöri. Léttsteikið grænmetið þar til það byrjar aðeins að mýkjast með smá af salti og pipar.
Setjið kjúklinginn saman við og reynið að ná sem mestu úr pönnubotninum ef eitthvað er því þar liggur oft mikið bragð.
Hrærið vel saman, setjið næst karrýduftið út í og veltið saman í augnablik til að ná upp karrýbragðinu. Bætið þar við restinni af kryddinu ásamt kínverska karrýmaukinu og blandið.
Bætið svo ofnbakaða grænmetinu saman við ásamt vökvanum.
Leyfið að malla saman í um það bil 20-30 mínútur og smakkið til þar til þið eruð ánægð með bragðið.
Berið fram með góðum hrísgrjónum, naan-brauði og fersku salati.
Einfalt naan-brauð
- 150 ml volgt vatn
- 2 tsk sykur
- 2 tsk þurrger
- 4 dl hveiti
- 3 msk brætt smjör
- 2 msk hreint jógúrt, ab-mjólk eða súrmjólk
- Um það bil ½ tsk túrmerik
- ½ tsk salt
- Smá dill og basilika ef fólk vill.
Setjið volgt vatn í sál og blandið sykrinum og gerinu saman við og hrærið létt saman. Setjið klút eða filmu yfir og leyfið að standa í um 5-10 mín.
Hnoðið þar næst öllu saman þar til allt er vel blandað, deigið á að vera svolítið klístrað.
Látið hefast í 30-40 mínútur. (Fínt að dunda sér við kjúklingaréttinn á meðan.)
Skiptið deiginu í 6 – 8 bita, eftir því hversu stór eða lítil þið viljið hafa brauðin. Fletjið þau út þannig þau séu um 1 cm á þykkt.
Það er alveg nóg að teygja þau til í höndunum, mér finnst útlitið verða skemmtilegra en ekkert að því að nota kökukefli við það heldur.
Setjið á smjörpappírsklædda plötu og filmu yfir eða klút og leyfið að hefast í svona 20 mín í viðbót. Setjið svo inn í 180°C heitan ofn í ca. 15-20 mín, eða þar til þau verða fallega gyllt/ljósbrún að lit. Takið brauðið út og penslið þau með smá bræddu smjöri sem búið er að hræra smá salti og hvítlauksblöndu saman við. Stráið sesamfræjum yfir og berið fram volg.
Krydduð hrísgrjón
Byrjið á að skola grjónin vel og setja nýtt vatn.
Sjóðið hrísgrjón eins og segir á pakkanum. Ég notaði Tilda long grain, finnst þau best með svona mat, en það má nota hvaða grjón sem er.
Út í vatnið með grjónunum setti ég um:
- 1 tsk af salti
- 1 tening af kjúklingakrafti
- 1-2 þurrkaðir heilir chili eftir hversu mikið bragð þið viljið (ég notaði Árbol chili)
- 2-3 lime lauf
- 2 stk stjörnuanís
- 1 msk þurrkaður graslaukur
- Smá ítölsk hvítlauksblanda ef vill
- Góð klípa af smjöri.
Hræri þetta vel saman og sjóðið ef leiðbeiningum á hrísgrjónum.
Þegar þau eru tilbúin, takið chili, anís og limelaufin úr.
Hristið aðeins í grjónunum með gaffli þannig þau verði smá „flöffí“.
Berið hrísgrjónin fram með kjúklingaréttinum ásamt nýbökuðu naan-brauði og fersku salati.