Deila þessari síðu
Heitir brauðréttir hafa fylgt okkur í gegnum árin í afmælum, fermingar- og brúðkaupsveislum, ættarmótum og við fleiri tilefni. Eitthvað fyrir fullorðna fólkið að gæða sér á, svona á milli sneiða af dísætum marengs-, súkkulaði- og rjómatertum sem eru alltaf í svo brjálæðislega miklu magni í kökuveislum!
Ekkert að því, ég elska kökur og allir sem þekkja mig vita það.
En það jafnast ekkert á við góðan brauðrétt – sérstaklega fyrir okkur sem viljum aðeins meira en bara sykur til að leika við bragðlaukana.
Þennan rétt er auðvelt að gera þegar tíminn er naumur – tekur enga stund.
Hráefni
- 1 heilt niðurskorið franskbrauð (taka frá 5-6 sneiðar). Léttrista í ofni í nokkrar mínútur, þar til sneiðarnar eru næstum ristaðar.
- Um það bil 200 g pepperoni
- ½ pakki skinka
- 2 grænar paprikur
- 1 krukka grænn aspas, skorinn í bita, safi tekinn frá
- 1 dós Dole-ananas í sneiðum, skorinn smátt. Takið frá 2 msk af ananassafanum
- 1 líter rjómi
- ½ dolla papriku-smurostur
- 2/3 dolla Camembert-smurostur
- 1 dolla 18% sýrður rjómi
- 1 Dalahringur, hvítmygluostur
- 1 pakki Ritzkex
- 1 tsk Aromat
- 2 msk þurrkaður graslaukur
- 1 tsk þurrkað dill
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Skerið grænmetið og kjötmetið niður nokkuð smátt og mýkið á pönnu upp úr smá olíu eða smjöri. Á meðan þá léttristið brauðið, (nema um 5-6 sneiðar sem þið geymið áfram).
Bætið svo safanum af aspasinum og ananasinum út á pönnuna ásamt kryddi, smurosti og rjóma. Leyfið að malla þar til blandast vel.
Spreyið eða berið á tvö eldföst mót með olíu.
Takið ristaða brauðið ásamt óristaða og rífið niður í stóra skál og hellið blöndunni yfir og blandið vel saman.
Skiptið jafnt á milli tveggja forma. Skerið Dalahringsostinn í bita og dreifið jafnt yfir.
Myljið Ritz-kexið yfir allt saman og bakið í ofni við 170°C í um það bil 20-30 mínútur þar til rétturinn er orðinn fallegur að lit.
Berið fram um leið og rétturinn er klár.
-
Grænmetisgjafabréf4.995 kr. – 6.945 kr.
-
Piparrótarsósa frá Völlum í Svarfaðardal1.090 kr.