Deila þessari síðu
Hver kannast ekki við það að eiga afganga af grjónagraut, sagógraut eða jafnvel hafragraut frá deginum áður? Tala nú ekki um banana sem eru komnir vel yfir sitt lífskeið og ekki beint lystugir að sjá.
Í minni vinnu þá er oftar en ekki smá afgangar af graut, og þar sem ég reyni alltaf eftir bestu getu að henda ekki mat, þá geri ég oft grautarlummur.
Þær vekja alltaf upp góðar minningar frá barnæsku þegar hún amma dekraði við okkur með nýsteiktum lummum eða klöttum eins og það var kallað á mínu heimili. Mörgum finnst gott að bæta við rúsínum í deigið, en það er auðvitað smekksatriði en hvort tveggja er mjög gott.
Ég var með mikið af bönunum í vinnunni sem hefðu aldrei komist á svið í neinni fegurðarsamkeppni og þar að leiðandi datt mér í hug að prófa að bæta þeim saman við lummurnar. Úr varð dásamlega góðar og mjúkar lummur, sem ég bar fram með bláberjasultu og rjóma.
Ég get sagt að það var ekki ein lumma eftir þegar ég mætti til vinnu næsta dag!
Það þægilega við þessa uppskrift er að það er hægt að slumpa til og frá þar til maður er sáttur með bragðið og áferðina og er því ekkert heilagt. Þetta er því klárlega uppskrift sem ég mun nota aftur.
Uppskrift
2 bollar grjónagrautur (ég var með sagógraut í þetta skiptið)
1 ½ -2 bollar hveiti
2 stórir vel þroskaðir stappaðir bananar
1-2 tsk vanilludropar
1 tsk sítrónudropar
½ tsk salt
2 tsk lyftiduft
½ -1 dl sykur eftir smekk
2 egg
½ dl bragðlítil olía, t.d. Isio-olía
Um það bil 1 bolli nýmjólk
Aðferð
Allt sett saman í hrærivélaskál nema mjólkin. Hrærið vel saman þar til kekklaust og bætið svo mjólkinni varlega saman við og blandið vel. Deigið á að vera svipað þykkt eins og á amerískum pönnukökum eða þykku vöffludegi. Þarna gerið þið sett rúsínur saman við ef fólk vill eða jafnvel skipt deiginu til helminga og gert hvoru tveggja.
Hitið pönnuna á miðlungshita og rétt þurrkið yfir hana með olíu. Það ætti að nást að gera 3 lummur í hvert sinn. Snúið þeim svo varlega við þegar loftgöt eru farin að myndast ofan á.
Berið fram með því sem ykkur lystir, eins og til dæmis góðri sultu og rjóma og smá hunangi. Fyrir sætabrauðsgrísina, eins og börnin mín, Nutella, hlynsýróp eða góða súkkulaðisósu.