Deila þessari síðu
Nanna Rögnvaldardóttir dregur upp úr sarpinum tvær skotheldar uppskriftir þar sem reykt ýsa er í aðalhlutverki. Manstu hvað reykta ýsan í gamla daga var góð?
Matland býður upp á reykta ýsu frá Hnýfli í Eyjafirði sem landað er á Dalvík. Alls 1,5 kg af reyktri gæðaýsu í loftþéttum umbúðum, roðflettri og skorinni í bita.
Reykt ýsa með beikoni, steiktum kartöflum og vorlaukssósu
Hráefni fyrir tvo
350 g reykt ýsa
350 g litlar kartöflur, skornar í fjórðunga eða minni bita
100 g beikon, skorið í bita
1 -2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2 msk ólífuolía
pipar
250 ml mjólk
rósmaríngrein (má sleppa)
grænu blöðin af 2-3 vorlaukum, söxuð
svolítill sósujafnari
Roðflettu ýsuna ef þarf og skerðu hana í bita.
Hitaðu olíuna á pönnu, settu kartöflur, beikon og hvítlauk á hana, kryddaðu með pipar og steiktu við meðalhita í 15-20 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru meyrar. Hrærðu oft á meðan.
Settu ýsubitana í pott ásamt 250 ml af mjólk, svolitlum pipar og rósmaríngrein ef hún er til, hitaðu að suðu og láttu malla mjög rólega í 3-4 mínútur. Taktu pottinn af hitanum og láttu bíða í nokkrar mínútur. Taktu ýsuna svo upp með gataspaða og haltu henni heitri.
Ég tók ýsuna upp úr með gataspaða og setti til hliðar. Settu vorlaukinn út í mjólkina og láttu malla í nokkrar mínútur. Þykkið sósuna með sósujafnara, smakkið hana og kryddið aðeins.
Berið reyktu ýsuna fram með kartöflunum, beikoninu og sósunni.
Reykt ýsa með spínati og kaperssósu
Hráefni fyrir tvo
350-400 g reykt ýsa, roðflett og skorin í stykki
400 ml mjólk
pipar
1 lárviðarlauf (má sleppa)
2 msk olía
grænu og ljósgrænu blöðin af 1 vænum blaðlauk, söxuð
100 g spínat
10-12 ólífur, steinlausar, skornar í tvennt
1-2 tsk kapers
sósujafnari
Settu 400 ml af mjólk í pott, ásamt pipar og e.t.v. einu lárviðarlaufi. Settu ýsuna út í og hitaðu að suðu. Lækkaðu hitann og láttu malla við mjög vægan hita í svona 3 mínútur, eða þar til ýsan er rétt soðin í gegn. Taktu hana upp úr úr með gataspaða, settu hana á disk og haltu henni heitri. Veiddu lárviðarlaufið upp úr og hentu þeim en settu kapers út í í staðinn og láttu malla rólega áfram.
Hitaðu 2 msk af olíu á pönnu og láttu blaðlaukinn krauma í nokkrar mínútur, þar til hann er farinn að mýkjast. Bættu spínati og ólífum á pönnuna, láttu krauma í 2-3 mínútur og hrærðu oft á meðan.
Jafnaðu kaperssósuna með sósujafnara (hún á ekki að vera sérlega þykk), smakkaðu og bragðbættu með pipar og e.t.v. salti eftir þörfum, en það þarf að hafa í huga að kapersinn er saltur svo að ekki er víst að þurfi neitt meira salt.
-
Reykt ýsa – roðlaus í bitum – 1 kg4.170 kr.